Ríkisstjórnin tilkynnti í gær,19.nóvember,að tekjuskattur einstaklinga ætti að lækka um 1 prósentustig næsta ár.Verður frumvarp þar um lagt fram á alþingi. Er þetta einu ári síðar en lofað var í þingkosningunum en þá var því lofað,að frumvarp um skattalækkanir yrði lagt fram strax haustið 2003.
Ríkisstjórnin segir nú,að næsti áfangi skattalækkunar,1% lækkun á tekjuskatti, komi til framkvæmda 1.janúar 2006, og að lokum 1.janúar 2007, 2 % lækkun. Eftir er að sjá hvort staðið verður við þessar skattalækkanir.
Skerðing barnabóta leiðrétt að hluta til
Þá boðar ríkisstjórnin einnig hækkun barnabóta en í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa barnabætur verið stórlega skertar. Hafa þær frá 1995 verið skertar um 11 1/2 milljarð.Ætlar ríkisstjórnin nú að skila til baka 2 ½ milljarði af þeim ránsfeng.Ekkert var hins vegar minnst á það að lækka virðisaukaskatt eins og lofað hafði verið en lækkun þess skatts t.d. á matvælum yrði mesta kjarabót láglaunafólks. Almenn lækkun tekjuskatts kemur einkum hálaunamönnum til góða. Hún gagnast mikið minna þeim lægst launuðu.
Fyrirtækjum ívilnað
Tekjuskattur fyrirtækja er aðeins 18%. Ríkisstjórnin lét það hafa forgang að lækka skatt fyrirtækja á meðan almenningur var skattpíndur með 38,5% skatti.Nú gumar ríkisstjórnin af lækkun tekjuskatts einstaklinga úr 25,75% í 24,75% á næsta ári.Þetta er tekjuskattur til ríkisins en við hann bætist svo útsvar,12,8% svo alls nemur tekjuskattur einstaklinga 38,5%.Lækkun,er nemur 1 prósentustigi vigtar því lítið.
Björgvin Guðmundsson |