“Stjórnarskipti” urðu 15.septemer sl.,a.m.k. að nafninu til. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar lét af völdum og við tók ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar.
EES-samningur færði okkur viðskiptafrelsið
Talsverðar umræður urðu af þessu tilefni í fjölmiðlum um hið liðna 13 ára tímabil stjórnarforustu
Sjálfstæðisflokksins.Sitt sýnist hverjum um þetta tímabil.Sjálfstæðisflokkurinn reynir að eigna sér áhrif EES-samningsins á íslenskt efnahagslíf enda þótt flokkurinn hafi í fyrstu verið algerlega á móti því, að Ísland gerðist aðili að EES.Það var Jón Baldvin Hannibalsson,sem knúði aðildina í gegn en hann var þá utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins. EES samningurinn færði okkur viðskiptafrelsið.
Hagvöxtur meiri áður
Talsmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu einnig fjálglega um mikinn hagvöxt og mikla kaupmáttaraukningu á þessu 13 ára stjórnarforustutímabili Sjálfstæðisflokksins.En þegar betur er að gáð kemur í ljós,að mun meiri uppgangur á þessu sviði hefur verið á fyrri tímabilum.Ef bornir eru saman síðustu 4 áratugir kemur eftirfarandi í ljós: Mestur er hagvöxtur og mest kaupmáttaraukning á áratugnum 1971 –1980 í stjórnartíð Ólafs Jóhannessonar,Geirs Hallgrímssonar og Benedikts Gröndal. En þá varð hagvöxtur rúm 5 % að meðaltali á ári á mann og kaupmáttur jókst um 5,7% að meðaltali á ári.En minnstur er hagvöxtur á áratugnum 1991-2002,þegar Sjálfstæðisflokkurinn er samfellt í forustu, eða aðeins um 2% að meðaltali á ári á mann og kaupmáttaraukning er einnig minnst á þessu tímabili eða aðeins um 1,8% að meðaltali á ári. Kaupmáttaraukning varð mjög mikil á viðreisnaráratugnum eða um 5,2% að meðaltali á ári.
Árás á velferðarkerfið
Það versta við tímabil stjórnarforustu Sjálfstæðisflokksins er þó það,að velferðarkerfið hefur látið undan síga.T.d. hafa kjör aldraðra og öryrkja versnað í samanburði við kjör hinna lægst launuðu á almennum vinnumarkaði,þar eð tengsl lífeyris þessara hópa við lægstu laun á vinnumarkaðnum voru rofin árið 1995.Síðan hafa aldraðir og öryrkjar fengið mun minni lífeyrishækkanir en nemur kauphækkunum láglaunafólks á vinnumarkaðnum.Skattbyrði láglaunafólks og fólks með meðaltekjur hefur aukist. Félagslega íbúðakerfið hefur verið rústað.Ástandið í sjúkrahúsmálum er mjög slæmt.
Peningahyggja og gróðahyggja
Einkenni tímabils stjórnarforustu Sjálfstæðisflokksins hefur verið peningahyggja og gróðahyggja.Atvinnulífið stjórnast nú alveg af gróðahyggju og manneskjuleg sjónarmið eiga ekki upp á pallborðið lengur. Þetta ástand hefur skapast í kjölfar einkavæðingar og frelsisvæðingar atvinnulífsins.Ég tel,að gengið hafi verið of langt í einkavæðingu og mál að linni. T.d. tel ég enga þörf á því að einkavæða Símann. Síminn er vel rekið fyrirtæki,hlutafélag í eigu ríkisins.Það skilar miklum og góðum hagnaði eins og það er rekið. Það er rekið á samkeppnisgrundvelli og nýtur engra sérréttinda þó ríkið eigi mestallt hlutaféð. Það er því engin þörf á því að afhenda einkaaðilum fyrirtækið.
Fátækt er mikil
Fátækt er mikil á Íslandi og mikil misskipting auðs.Á tímabilinu 1995-2001 jókst fátækt úr 8,8% í 13,2% af tölu framteljanda. Hið rangláta kvótakerfi hefur fært mikla fjármuni til tiltölulega fárra,sem fengu kvótum úthlutað frítt.Það er blettur á íslensku samfélagi að hafa ekki útrýmt fátækt og búið öldruðum og öryrkjum sómasamleg kjör.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 1.nóvember 2004
. |