Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur nú viðurkennt opinberlega,að ekki sé víst,að “sönnunargögn” þau,sem hann lagði fyrir Öryggisráð Sþ. vegna Íraksstríðsins hafi verið rétt eða að þau hafi staðist.Gögnin,sem Powell lagði fram áttu að sanna,að Írakar hafi haft búnað til þess að framleiða efnavopn og að þeir hafi átt yfir gereyðingarvopnum að ráða. Gögn þessi dugðu ekki til að sannfæra Öryggisráðið.Ráðið féllst ekki á að réttlætanlegt væri að gera innrás í Írak
.
Bush dregur einnig í land
Áður hefur Bush Bandaríkjaforseti einnig dregið verulega í land í sambandi við Íraksstríðið.Segja má,að Bandaríkin,CIA og þingið hafi viðurkennt að Írakar hafi ekki haft yfir gereyðingarvopnum að ráða. En gereyðingarvopnin voru helsta ástæðan fyrir innrásinni í Írak. Það er því alveg ljóst,að innrásin í Írak var gerð á fölskum forsendum. Þetta hafa margir aðilar í Bandaríkjunum nú viðurkennt.
En íslensk stjórnvöld berja áfram hausnum við steininn.Þau segja áfram,að innrásin í Írak hafi verið nauðsynleg. Það er sama þó Bandaríkin sjálf viðurkenni,að engin gereyðingarvopn hafi verið í Írak. Íslensk stjórnvöld láta samt ekki segjast.
Íslenskar flugvélar til Afganistan
Íslensk stjórnvöld tilkynntu fyrir skömmu mjög hróðug,að þau munu senda íslenskar flugvélar með gögn og búnað til Afganistan. Einnig væri send aðstoð til Íraks. Hér er verið að efna loforðið sem íslenskir ráðherrar gáfu Bush á ráðherrafundi Nato í Prag. Þar lofuðu þeir,að íslenskar flugvélar yrðu lánaðar til hergagnaflutninga til Írak og alls varið 300 millj. ísl. kr. í því skyni. Mikil mótmæli urðu í landinu vegna þessa loforðs íslenskra ráðherra. Ástþór Magnússon sendi varúð með tölvupósti út um allan heim vegna þessa. Varð það ásamt almennum mótmælum til þess að íslenskir ráðherrar hættu við að lána íslenskar flugvélar í hergagnaflutninga. En hér var um mikið glappaskot íslenskra ráðamanna að ræða.
Björgvin Guðmundsson