Þeir,sem höfðu búist við, að 90 % lán tækju gildi nú um áramót urðu fyrir vonbrigðum. Efndir á þessu kosningaloforði Framsóknarflokksins láta á sér standa. Nú er sagt, að beðið sé eftir áliti ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA og það komi ekki fyrr en næsta vor. Ljóst er, að ríkisstjórnin er að tefja málið,þar eð það mælist illa fyrir hjá Seðlabanka og hagfræðingum almennt,að hækka lánin upp í 90% af verði fasteigna.Ríkisstjórnin ætlar að tefja málið eins mikið og mögulegt er og síðan verður það hugsanlega framkvæmt í áföngum. Þetta kosningaloforð Framsóknar virðist vera orðið vandræðabarn ríkisstjórnarinnar.
Til þess að gera eitthvað og sefa óánægju þeirra,sem trúðu kosningaloforði Framsóknar er nú ákveðið að hækka húsnæðislánin lítillega. Lán vegna kaupa á eldra húsnæði hækka í 9,2 millj. og lán vegna kaupa á nýjum íbúðum hækka í 9,7 millj. kr. Fyrir kosningar lofaði Framsókn að hækka lánin í 18 millj. kr. Breytingin nú er lítil miðað við það loforð. Virðist Framsókn ætla að svíkja kosningaloforð sín í húsnæðismálum. Jóhanna Sigurðardóttir,alþingismaður segir,að breytingarnar nú og 1.júlí n.k. séu fyrsta skrefið í þá átt að flytja íbúðalánin í bankana. Sjálfstæðisflokkurinn stefni að því og sé það athyglisvert,að breytingarnar nú voru samdar í fjármálaráðuneytinu.
Vextir lækka lítillega nú. Ætlunin er að afnema húsbréfakerfið 1.júlí n.k. og taka upp peningalán í staðinn.
Björgvin Guðmundsson |