Það má segja,að þjóðin hafi farið á hvolf,þegar það spurðist út, að bankaráð Kaupþings Búnaðarbanka hefði samþykkt að veita æðstu stjórnendum bankans kaupauka,sem hefði getað numið allt að 365 millj kr. á mann.Samkvæmt sérstökum kaupréttarsamningi áttu formaður bankaráðs,Sigurður Einarsson, og Hreiðar Már,forstjóri bankans að fá að kaupa hlutabréf í bankanum á afturvirku gengi fyrir 950 millj. kr. hvor,fyrir lánsfé úr bankanum.Miðað við markaðsvirði hlutabréfanna í dag hefði hagnaður þeirra hvors um sig numið 365 millj. kr. við sölu nú. En áskilið var að bréfin yrðu ekki seld fyrr en eftir 5 ár og óvíst hvert markaðsvirði bréfanna yrði þá.Mikil óánægja varð þegar vegna þessarar ákvörðunar Kaupþings Búnaðarbanka og mótmælaalda skall á. Forsætisráðherra og ASI mótmæltu harðlega.Formaður bankaráðs og forstjóri ákváðu að falla frá kaupauka sínum til þess að skapa frið um bankann.
Taumlaus gróðahyggja
Hvernig gat þetta gerst? Var þetta löglegt? Sennilega var það löglegt en það var siðlaust.Hér birtist afleiðing hins óhefta frelsis á fjármagns-og viðskiptamarkaði. Hér sáu menn afleiðingu taumlausrar gróðahyggju. Sá,er þetta ritar, hefur varað við óheftri gróðahyggju í grein í Morgunblaðinu.Núverandi ríkisstjórn hefur innleitt þetta kerfi gróðahyggju í íslenskt samfélag.
Bankaráð Kaupþings Búnaðarbanka ber ábyrgð á þeim kaupréttarsamningi,sem hér hefur verið gerður að umtalsefni. Bankaráðið samþykkti samning,sem gat fært tveimur æðstu stjórnendum bankans 365 millj. kr. gróða hvorum fyrir sig. Samkvæmt hlutafélagalögum ber stjórnin mikla ábyrgð. Ekki er því nóg að gagnrýna formann og forstjóra. Stjórnin öll ber hér ábyrgð
Væntanlega læra stjórnendur fjármálastofnana af þessu máli og gæta þess,að slíkt sem þetta endurtaki sig ekki. Samninga um rétt til kaupa á hlutabréfum og um kaupauka starfsmanna á að sjálfsögðu að leggja fyrir hluthafafundi. Verður það væntanlega gert í framtíðinni en það var ekki gert í Kaupþingi Búnaðarbanka.
Björgvin Guðmundsson,viðskiptafræðingur
|