Í mars 2003 skrifaði ég blaðagrein um Íraksstríðið og sagði þá m.a. eftifarandi: “ Það er (því) full ástæða til þess að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til þess að rannsaka hvernig ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak var tekin.Hvaða upplýsingar hafði utanríkisráðherra um gereyðingarvopn Íraka? Var ákvörðun Íslands tekin á löglegan hátt?”. Þessi orð eru enn í fullu gildi. Það er jafnmikil þörf á því nú eins og á árinu 2003,þegar ég setti fram tillögu um rannsóknarnefnd Alþingis,að fram fari rannsókn á þessu máli.
Ráðherrar ósammála
Ráðherrar og alþingismenn ríkisstjórnarinnar eru ekki sammála um það hvernig ákvörðun var tekin um stuðning við innrás í Írak.Forsætisráðherra,formaður Framsóknarflokksins og landbúnaðaráðherra,varaformaður Framsóknarflokksins eru ekki sammála um málið. Nokkrir alþingismenn stjórnarflokkanna hafa upplýst,að ákvörðun um stuðning við árás á Írak var ekki borin undir utanríkismálanefnd eins og lög kveða á um,að gert skuli.Alþingismennirnir Kristinn H.Gunnarsson og Jónína Bjartmars hafa upplýst þetta.Magnús Stefánsson þingmaður Framsóknar segir,að málið hafi ekki verið rætt í þingflokki Framsóknar. Forsætisráðherra hefur upplýst í sjónvarpsviðtali,að formleg ákvörðun um stuðning Íslands við innrás í Írak var ekki tekin í ríkisstjórn.
Ákveðið af tveimur mönnum!
Ráðherrar og þingmenn segja,að ákvörðunin hafi verið tekin af tveimur mönnum,forsætisráðherra og utanríkisráðherra.Samkvæmt stjórnarskránni ber að leggja mikilvæg stjórnarmálefni fyrir ráðherrafund ( fund ríkisstjórnar).Það var ekki gert í þessu máli.Ákvörðunin um stuðning við innrás í Írak og samþykki við því að setja Ísland á lista hinna staðföstu ríkja var ekki lögð fyrir ríkisstjórn. Æ fleiri alþingismenn telja,að framið hafi verið lögbrot með því að sniðganga utanríkismálanefnd í þessu mikilvæga máli. Var einnig framið stjórnarskrárbrot með því að leggja málið ( ákvörðun um stuðning við innrásina) ekki fyrir ríkisstjórn? Allt þetta þarf að rannsaka. Því ber alþingi að skipa rannsóknarnefnd til þess að rannsaka allt þetta mál og koma því á hreint. Þjóðin á heimtingu á því að það verði gert.Ekkert mark er takandi á lögfræðiáliti Eiríks Tómassonar flokksbróður forsætisráðherra í máli þessu. Eiríkur er vonbiðill um embætti Hæstaréttardómara.
Öll stjórnarandstaðan vill rannsókn
Frá því ég varpaði fram tillögunni um rannsóknarnefnd Alþingis á árinu 2003 hafa margir áhrifamiklir stjórnmálamenn tekið undir þá tillögu. Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar hefur tekið undir hana og flutt tillögur um rannsókn.. Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna hefur tekið undir það,að fram fari rannsókn á máli þessu og hefur flutt ítarlegar tillögur umþað.Frjálslyndi flokkurinn styður einnig rannsókn. Öll stjórnarandstaðan er sammála um það í dag,að rannsaka þurfi mál þetta og leggja öll spilin á borðið.Þingflokkur Samfylkingarinnar samþykkti á fundi sínum 21.janúar sl. að krefjast þess, að fundargerðir utanríkismálanefndar og ríkisstjórnarinnar um innrásina í Írak yrðu gerðar opinberar.
Pólitískur kattarþvottur
Kattarþvottur eins og sá,sem forsætisráðherra viðhafði í þessu máli 17.janúar sl. er ekki sæmandi næstæðsta embættismanni þjóðarinnar.Það er ekki unnt að bera það á borð fyrir þjóðina að Íraksmálið hafi oft verið rætt á alþingi og í ríkisstjórn þegar verið er að spyrja um það hvort “ákvörðun um innrás” hafi verið rædd á réttum vettvangi. Þjóðin vill skýr svör. Og skýr svör fást ekki nema með rannsókn.Þess vegna þarf að skipa rannsóknarnefnd á Alþingi.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 7.feb. 2005 |