Miðað við þær fregnir,sem lekið hafa út um fiskveiðistjórnarmálið er Jón Bjarnason,sjávarútvegsráðherra,á hröðu undanhaldi frá fyrningarleiðinni,stefnumáli ríkisstjórnarinnar í málinu.Unnið hefur verið að smíði frumvarps um málið í sjávarútvegsráðuneytinu.Og lausafregnir herma,að í drögum að frumvarpi sé lagt til,að útgerðarmennj fái fiskveiðiheimildir til 15 ára.Ca.8 % verði i pottum til úthlutunar til byggða úti á landi og til nýrra aðila.Hlutdeild potta í heildinni geti ef til vill aukist eitthvað á nokkrum árum.Ef þessar lausafregnir eru réttar er ætlunin að svíkja kosningaloforð Samfylkingar og VG um fyrningu aflaheimilda á allt að 20 árum og úthlutun á ný á sanngjarnan og réttlátan hátt.
Liðónýt lausn-svik
Að mínu áliti kemur ekki til greina að fara þá leið,sem hér er lýst.Það er mikið nær að fresta málinu en að leggja fram liðónýta lausn,sem gengur í berhögg við kosningaloforð stjórnarflokkanna.Rifjum upp hvað er að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi.Það,sem er að er, að nokkrir stórir aðilar hafa megnið af fiskveiðiheimildunum.Þeir geta valsað með þær að vild,framselt þær og jafnvel selt þær og hætt útgerð eins og mörg dæmi eru um og grætt stórfé á því..Fiskveiðiheimildum var upphaflega úthlutað frítt.Útgerðarmenn hafa kvótana á leigu til eins árs í senn en þeir hafa haft þá svo lengi,að þeir eru farnir að líta á þá sem sína eign.Leigugjaldið,sem útgerðarmönnum er gert að greiða fyrir afnot af kvótunum er hlægilega lágt.Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gagnrýnt fiskveiðistjórnarkerfið og sagt að það sé ósanngjarnt og ranglátt kerfi sem hleypi engum nýjum aðilum að.Nefndin segir,að kerfið feli í sér mannréttindabrot.Enda þótt nokkur ár séu síðan þessi úrskurður Mannréttindanefndar Sþ. birtist hafa íslensk stjórnvöld ekkert gert til þess að breyta kerfinu og afnema mannréttindabrotin.
Á að festa ranglátt kerfi í sessi?
Ef ætlunin er að afhenda útgerðarmönnum kvótana til 15 ára eða lengri tíma er verið að festa hið rangláta kerfi í sessi og verðlauna stórútgerðirnar fyrir misnotkun á kvótunum.Það kemur ekki til greina.Það væru hrein svik á kosningaloforð Samfylkingar og VG um að fara fyrningarleið.Tillaga Samfylkingar um fyrningu( innköllun) aflaheimilda á 20 árum er mjög mild leið gagnvart útgerðarmönnum.Það væri þá aðeins verið að innkalla 5% á ári.Útgerðirnar þyldu það vel. Síðan á að úthluta veiðiheimildum á ný á sanngjarnan og réttlátan hátt og þannig,að nýir aðilar komist að.Hugmyndin um potta fyrir landsbyggðina er ekki slæm en hlutdeild potta þyrfti að vera mun meiri en 8%,sennilega 20-25%.Ef pottar væru aðeins 8% væri það svipuð hlutdeild og er utan kerfisins í dag.Þá þarf að hækka leigugjaldið ( auðlindagjaldið).Íslenska þjóðin á fiskveiðiauðlindina,kvótana,og hún á að fá hæfilegt gjald fyrir afnot útgerðarmanna af þessari auðlind.Ekki kemur til greina,að hafa gjaldið óbreytt.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 30.mars 2011