Björn Ingi Hrafnsson,efsti maður á lista Framsóknar í Reykjavík, segir á heimasíðu sinni að ef Framsóknarflokkurinn tapi miklu fylgi í sveitarstjórnarkosningunum,muni það hafa mikil áhrif á stjórnarsamstarfið.Framsóknarmenn muni ekki sitja undir því að standa einir í vörn fyrir verk ríkisstjórnarinnar meðan samstarfsflokkurinn hleypur í stjórnarandstöðu í umdeildum málum í miðri kosningabaráttu. Björn Ingi segir þetta eftir að skoðanakönnun Fréttablaðsins birtist en samkvæmt henni fengi Framsókn 3,9% í Reykjavík.Hafa ber í huga, að Björn Ingi er aðstoðarmaður forsætisráðherra.
Björn Ingi leiðir hér athyglina að því, að landsmálin blandast mjög inn í sveitarstjórnarkosningarnar.Það er ekki óeðlilegt. Það er mikil óánægja meðal almennings í landinu með stjórnarstefnuna og kjósendur nota fyrsta tækifæri til þess að refsa stjórnarflokkunum,einkum Framsókn, þar eð mönnum finnst, að Framsókn hafi yfirgefið eigin stefnu til þess að styðja Sjálfstæðisflokkinn.Ég tel það í góðu lagi, að kjósendur í sveitarstjórnarkosningunum refsi stjórnarflokkunum rækilega fyrir stjórnarstefnu sem leitt hefur ójöfnuð og ranglæti yfir þjóðina.
Ójöfnuður hefur aukist mikið
.Eins og margoft hefur verið bent á hefur ójöfnuður aukist mikið hér á landi í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.Aðalástæðan er kvótakerfið en slæm áhrif þess á tekjuskiptinguna hafa stöðugt verið að koma betur og betur í ljós. En einnig hefur stefna stjórnarflokkanna í velferðarmálum og skattamálum haft hér mikil áhrif. Eldri borgarar og öryrkjar hafa ekki fengið leiðréttingu á lífeyri til jafns við kauphækkanir láglaunafólks.Skattbyrði láglaunafólks hefur verið að þyngjast en skattar þeirra,sem hafa mestar tekjur, hafa verið að léttast.
Hagstofan hefur brugðist
Frá því að Þjóðhagsstofnun var lögð niður hefur engin opinber stofnun haldið til haga tölum um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu.Eðlilegast væri að Hagstofan gerði það en svo hefur ekki verið. Mun Ísland eina landið í Vestur Evrópu sem heldur ekki til haga neinum opinberum tölum um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu.Prófessorarnir Þorvaldur Gylfason og Stefán Ólafsson hafa ritað talsvert um tekjuskiptinguna.Má segja,að þeir hafi tekið að sér að fjalla um efni,sem opinberar stofnanir hafa algerlega vanrækt.
Fjórfaldur munur hér
Samkvæmt upplýsingum Þorvaldar Gylfasonar á heimasíðu hans er fjórfaldur munur á tekjum ríkasta og fátækasta fimmtungs mannfjöldans á Íslandi en það er svipaður munur og er í Þýskalandi, Austurríki,Hollandi og Kóreu. Er hvergi svo mikill munur á Norðurlöndum eins og hér á landi. Ójöfnuður en meiri hér á landi en í nokkru hinna Norðurlandanna.Í Noregi,Danmörku og Svíþjóð er umræddur munur þrefaldur en í Bandaríkjunum er munurinn áttfaldur.
Frá 1995 hefur ójöfnuður aukist mikið hér á landi.Haldi sama þróun áfram næsta áratug verður ójöfnuður hér á landi orðinn eins mikill og í Bandaríkjunum.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 24.mai 2006
|