Undanfarið hafa átt sér stað miklar umræður um framtíð ríkisútvarpsins. Rædd hefur verið spurningin hvort einkavæða ætti ríkisútvarpið eða hafa það áfram í eigu ríkisins.
Markús Örn Antonsson,útvarpsstjóri,ræddi þetta mál á hreinskilinn og hispurslausan hátt í viðtali við Fréttablaðið og í kastljósi sjónvarpsins. Lýsti hann þeirri skoðun sinni og færði rök fyrir henni,að ríkisútvarpið ætti áfram að vera í eigu ríkisins. Þannig væri unnt að tryggja menningarlegt hlutverk þess og öryggishlutverk. Hins vegar gagrýndi hann,að stjórnvöld hefðu sett stofnunina í fjársvelti með því að neita henni um hækkun afnotagjalda á meðan ráðamenn gætu ekki komið sér saman um rekstrarform ríkisútvarpsins. Fram hefur komið,að hinn nýi menntamálaráðherra,Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, vill að ríkisútvarpið verði áfram í eigu ríkisins og rekið af því. Með því,að Framsóknarflokkurinn er sömu skoðunar má telja víst að rekstarform ríkisútvarpsins verði óbreytt.
Tillaga ungra íhaldsmanna: Úr öskunni í eldinn
Nokkrir ungir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt frumvarp á alþingi um, að ríkisútvarpið verði selt einkaðilum. Síðan leggja þeir til,að samt sem áður verði áfram kosið pólitískt útvarpsráð,sem úthluti fjármunum til allra útvarps-og sjónvarpsstöðva á markaðnum. Sett verði það skilyrði, að áfram verði gerð menningardagskrá og öryggishlutverk fjölmiðla tryggt. Eitt helsta gagnrýnisefni núverandi fyrirkomulags hefur verið hið pólitíska útvarpsráð. Þeir sem gagnrýna tillögu ungu íhaldsmannanna telja því,að farið sé úr öskunni í eldinn með tillögu þeirra.
Markús Örn hefur rekið útvarpið vel
Ekki verður séð,að neina nauðsyn beri til þess að einkavæða ríkisútvarpið. Raunar er það alveg fráleit tillaga. Ríkisútvarpið er öflug og traust stofnun og virðist Markús Örn Antonsson hafa rekið hana vel miðað við erfiðar aðstæður og þröngan fjárhag.Ríkisútvarpið hefur um langt skeið gegnt menningarhlutverki á myndarlegan hátt og landsmenn geta treyst því,að ef náttúruhamfarir verða eða stórslys þá getur ríkisútvarpið komið boðum til allra landsmanna. Ef einkaaðilar væru látnir fá ríkisútvarpið til þess að braska með og græða á því mundu þessi mikilvægu markmið,á sviði menningarmála og öryggismála fara fyrir ofan garð og neðan.
Björgvin Guðmundsson
"Ekki verður séð,að neina nauðsyn beri til þess að einkavæða ríkisútvarpið. Raunar er það alveg fráleit tillaga. Ríkisútvarpið er öflug og traust stofnun og virðist Markús Örn Antonsson hafa rekið hana vel miðað við erfiðar aðstæður og þröngan fjárhag."
|