Það mál,sem er efst á baugi í þjóðmálunum í dag er frumvarp forsætisráðherra um eignarhald á fjölmiðlum. Segja má,að þjóðfélagið hafi bókstaflega farið á hvolf vegna máls þessa. Almenningi finnst svo mikið offors í málinu,að það veldur undrun. Taka þurfti málið fyrir á aukafundi í ríkisstjórn á sunnudegi eins og lífið lægi við. Og nú þarf að hespa málinu af á Alþingi.
Hvers vegna liggur svona mikið á? Er yfirleitt einhver þörf á lögum um eignarhald á fjölmiðlum? Ég fæ ekki séð,að svo sé. Ástandið á fjölmiðlamarkaðnum hefur batnað, ef eitthvað er.Áður voru hér mörg flokksblöð. Þau voru ekki hlutlaus. Þau hömpuðu sínum flokkum.Og lengi vel réðu Sjálfstæðismenn yfir sterkustu fjölmiðlunum, Morgunblaðinu, DV og Stöð2.Þá var ekki talin þörf á neinni löggjöf um fjölmiðla. Morgunblaðið var hér áður mjög litað af áróðri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. En síðan var blaðið opnað fyrir öllum sjónarmiðum og enda þótt blaðið hafi um langt skeið verið sterkasta blaðið á markaðnum hefur það ekki verið misnotað í þágu eigenda sinna mörg undanfarin ár. En hvað um nýju fjölmiðlasamsteypuna,Norðurljós og fjölmiðlana,sem það fyrirtæki gefur út og rekur? Er þeir misnotaðir í þágu eigenda sinna. Þess verður ekki vart. Fréttablaðið er orðið mjög faglegt og gott blað,sem flytur hlutlausar fréttir af mönnum og málefnum og greinar um ýmis efni,m.a. aðsendar greinar frá ýmsum þekktum mönnum. Sumir finna það helst að Fréttablaðinu í dag,að það sé orðið of líkt Morgunblaðinu! DV er allt annars konar blað,nokkurs konar æsifréttablað ( Tabloid).Ég er ekki ánægður með það.En þegar stjórnmálamenn kveinka sér undan DV verða þeir að gera sér það ljóst,að DV er ekki aðeins að birta óþægilegar fréttir fyrir stjórnmálamenn heldur einnig fyrir óbreytta einstaklinga,sem lenda í einhverju. Stöð 2 er mjög sambærileg stöð og Sjónvarpið. Þess verður ekki vart að Stöð 2 sé misnotuð í þágu eigenda sinna.
En hvers vegna er þá verið að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum. Jú,það virðist vera vegna þess að ríkisstjórninni eða forsætisráðherra sé eitthvað í nöp við þá Bónusfeðga. En Alþingi getur ekki sett lög gegn einu ákveðnu fyrirtæki af slíkum ástæðum. Það gengur ekki.
Við höfum ágæt samkeppnislög og ef eitthvað sterkt fyrirtæki misnotar aðstöðu sína á markaði,fjölmiðlafyrirtæki eða annað fyrirtæki þá geta samkeppnisyfirvöld tekið í taumana. Samkeppnislögin duga fyrir fjölmiðlafyrirtækin eins og fyrir önnur fyrirtæki í landinu.
Björgvin Guðmundsson.
Birt í Fréttablaðinu 30.apríl 2004 |