Mikið hefur verið rætt um það,að verð á matvælum og öðrum neysluvörum sé mun hærra hér á landi en í löndum Evrópusambandsins. Talsmenn aðildar Íslands að ESB telja,að verð á neysluvörum mundi lækka verulega hér á landi, ef Ísland gengi í Evrópusambandið. Þannig yrði um verulega kjarabót að ræða við aðild. Hið sama sé að segja um vextina. Þeir mundu lækka talsvert,ef Ísland gengi í ESB og tæki upp evruna,segja talsmenn aðildar.
10 % HÆRRA VERÐ HÉR
Samræmd vísitala neysluverðs í EES ríkjum ( ESB og EFTA) er birt reglulega og segir okkur hvernig verð neysluvara er og breytist í EES-ríkjum. Vísitala neysluverðs í EES-ríkjum var 112,9 stig í júlí sl. en í sama mánuði var þessi vísitala 125 stig á Íslandi. Samkvæmt þessari vísitölu neysluverðs var verð neysluvara því rúmlega 10% hærra á Íslandi í júlí sl. en í EES.Það er talsverður munur.Munurinn á verði matvæla í ESB og á Íslandi er þó enn meiri.
Verðbólga er nokkru meiri hér en í ríkjum ESB. Útlit er fyrir 2,7 % verðbólgu hér í ár en 2,5% næsta ár.Reiknað er með, að verðbólgan verði 1,5% í ríkjum ESB næsta ár.
Hagvöxtur á Íslandi var neikvæður um 0,5 % sl.ár. Hins vegar er búist við talsverðum hagvexti á yfirstandandi ári eða 1,75 %. Er það fyrst og fremst vegna nýrra opinberra framkvæmda og framkvæmdanna við Kárahnjúka,sem hagvöxtur eykst í ár og næsta ár. Frestun Norðlingaölduvirkjunar dregur nokkuð úr hagvexti eða um 0,5%. Aukinn hagvöxtur er jákvæð afleiðing framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun. En neikvæð áhrif virkjunarframkvæmdanna er aukin þensla í efnahagskerfinu. Hagfræðingar leggja áherslu á, að öðrum framkvæmdum verði frestað á meðan framkvæmdir við Kárahnjúka standa yfir til þess að draga úr þensluáhrifum.
Halli var á búskap hins opinbera sl. ár eða um 2 milljarðar.Var það einkum vegna hallareksturs sveitarfélaganna en afkoma ríkissjóðs var í járnum. Búist er við að afkoman verði betri í ár.Atvinnuleysi verður um 3% á yfirstandandi ári.Það mun væntanlega fara minnkandi og fara í 2% næsta ár.
ÞENSLUÁHRIF GREINILEG
Vöruskiptajöfnuðurinn var óhagstæður um 5,9 milljarða á fyrstu 6 mánuðum yfirstandandi árs. Eftirspurn eftir innfluttum vörum hefur aukist á árinu.Innflutningur hefur aukist um 7,3% Má búast við að vörueftirspurn muni enn aukast, svo og eftirspurn eftir þjónustu,þar á meðal ferðalögum til útlanda. Þensluáhrifin eru greinileg.Afkoma fyrirtækja batnaði verulega sl. ár og hún verður einnig góð á yfirstandandi ári. Fyrirtækin ættu því að geta greitt launafólki betri laun en nú er gert.Nýir kjarasamningar verða gerðir í upphafi næsta árs.
Nú liggur fyrir að mestu hverjar kröfur verkalýðshreyfingarinnar verða í næstu kjarasamningum. En auk beinna kauphækkana mun verkalýðshreyfingin fram á varnaraðgerðir fyrir velferðarkerfið. Formaður Alþýðusambands Íslands,Grétar Þorsteinsson,hefur vakið athygli á því,að velferðarkerfið hafi veikst og hefur hann óskað eftir úrbótum. Hann hefur m.a. vakið athygli á því,að atvinnuleysisbætur hafi dregist aftur úr lágmarkslaunum fiskvinnslufólks en þau nema nú 93 þús kr. á mánuði á meðan atvinnuleysisbætur eru aðeins 77.500 kr. á mánuði. Einnig hefur hann óskað eftir leiðréttingum á kjörum öryrkja og úrbótum í húsnæðismálum aldraðra til þess að gera þeim kleift að búa sem lengst í heimahúsum. Í ræðu,er forseti ASÍ flutti 1.mai sl., sagði hann,að setja þyrfti 1 milljarð til viðbótar í velferðarkerfið til þess að sníða af því versu agnúana.Við höfum efni á því að láta þessa upphæð í velferðarkerfið,sagði Grétar. En við höfum ekki efni á því að gera það ekki.
Björgvin Guðmundsson,viðskiptafræðingur
Birt í Mbl. 22.desember 2003
|