Fyrir alþingiskosningarnar á sl. ári gáfu stjórnarflokkarnir,Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, mikil kosningaloforð. Það voru stærri kosningaloforð en dæmi voru til um áður í kosningum. Mun ekki ofsagt,að þessi stóru loforð hafi tryggt stjórnarflokkunum áframhaldandi völd í stjórnarráðinu. Kjósendur eiga heimtingu á því að fá skýr svör strax að loknum kosningum um efndir kosningaloforða.Þau svör eru ekki komin enn.
20 milljarða skattalækkun svikin?
Stærsta kosningaloforðið fyrir síðustu kosningar gaf Sjálfstæðisflokkurinn: Tekjuskattar einstaklinga skyldu lækka um 20 milljarða kr. Svo stórt kosningaloforð hafði enginn stjórnmálaflokkur gefið áður. Var dregið í efa,að þetta yrði nokkru sinni framkvæmt. En Sjálfstæðisflokkurinn stóð fastur á því,að þetta yrði efnt og því til staðfestingar var sagt,að það yrði upplýst og ákveðið á alþingi strax haustið 2003 hvernig skattalækkunin yrði framkvæmd.En ekki var stafur um skattalækkunina í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2004. Og ekkert var ákveðið á haustþinginu um það hvernig framkvæma ætti umrædda skattalækkun. Það var svikið.Er nú allt útlit fyrir,að 20 milljarða skattalækkunin verði svikin.Að vísu tala Sjálfstæðismenn um að málið verði tekið upp að loknum kjarasamningum en ekki er mikið að treysta á það.Stærstu kjarasamningarnir hafa þegar verið gerðir en ekkert gerist í skattamálum.Helst má búast við,að einhver hluti þessarar skattalækkunar komi í lok kjörtímabilsins en þó er það engan veginn víst.
Í staðinn: Skattahækkun og niðurskurður
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn boðaði 20 milljarða skattalækkun sögðu ýmsir og þar á meðal Vinstri grænir,að svo mikil skattalækkun væri ekki framkvæmanleg án niðurskurðar velferðarkerfisins.Á þeim forsendum lögðust Vinstri grænir gegn þessari skattalækkun.VG virðast hafa haft nokkuð til síns máls í þessu efni.Am.k. er niðurskurður velferðarkerfsinis þegar hafinn enda þótt engin skattalækkun hafi átt sér stað. Ríkisstjórnin ákvað að skera útgjöld Landpítala háskólasjúkrahúss niður um 1 ½ milljarð. Liggur nú við neyðarástandi á spítalanum af þeim orsökum.Sagt er,að engir peningar séu til svo komast megi hjá neyðarástandi en á sama tíma er talað um milljarðaskattalækkun! Sjúklingagjöld voru hækkuð um sl. áramót svo og bensíngjald,þungaskattur o.fl.Það má því segja,að í stað skattalækkana hafi fólk fengið skattahækkanir og niðurskurð á velferðarkerfinu.Þannig efnir ríkisstjórnin þetta stærsta kosningaloforð sitt!
90 % lánin svikin
Annað stærsta kosningaloforðið í kosningabaráttunni sl. vor var loforð Framsóknarflokksins um að hækka húsnæðislánin í 90%. Var hamrað á því loforði í kosningabaráttunni og sagt,að þessi hækkun mundi einkum koma ungu fólki vel.Er líklegt,að þetta loforð hafi dregið eitthvað af ungu fólki að Framsóknarflokknum.Þetta stóra kosningaloforð getur því hafa skipt sköpum fyrir Framsókn í kosningunum og fært flokknum þau atkvæði sem vantaði til þess að tryggja áframhaldandi meirihluta ríkisstjórnarinnar. Þetta kosningaloforð verður trúlega svikið. Það bólar ekkert á framkvæmd þess.Til málamynda var örlítil hækkun húsnæðislána ákveðin fyrir skömmu. Er nú helst reiknað með að það verði farið að athuga einhverja hækkun lána vegna kosningaloforðsins seint á kjörtímabilinu. Seðlabankinn og fjöldi hagfræðinga hefur varað við 90% hækkun húsnæðislána. Þessir aðilar hafa sagt,að svo mikil hækkun húsnæðislána gæti valdið þenslu og verðbólgu.Ríkisstjórnin veit því ekkert í hvorn fótinn hún á að stíga í málinu. Talið er,að ríkisstjórnin muni ef til vill samþykkja að hækka lánin að hluta til seint á kjörtímabilinu. En það teljast ekki efndir á kosningaloforðinu.
Svikin við öryrkja
Segja má,að loforð Framsóknar um að stórhækka lífeyri öryrkja hafi einnig verið kosningaloforð. Heilbrigðisráðherra Framsóknar samdi við Öryrkjabandalag Íslands í mars 2003 um sérstakar,tilteknar hækkanir til handa öryrkjum frá og með 1.janúar sl. Þessar hækkanir mundu hafa kostað ríkissjóð 1 ½ milljarð kr. Á síðustu stundu ákvað ríkisstjórnin að svíkja loforðið við öryrkja og láta þá aðeins fá 1 milljarð í hækkanir um sl. áramót í stað 1 ½ milljarð . Er hér ef til vill um svívirðilegustu svikin að ræða.
Kosningaloforðin,sem ríkisstjórnin hefur svikið eru mikið fleiri. Vikið verður nánar að þeim síðar.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Mbl. 1.apríl 2004
|