Mjög góð afkoma var hjá Landssímanum sl. ár eins og reyndar var einnig árið
áður.Er Landssíminn gott dæmi um ríkisfyrirtæki,sem er vel rekið og skilar góðum
hagnaði.Oft er sagt,að einkarekstur skili betri árangri en opinber rekstur en
reynslan sýnir,að það á ekki við um Landssímann.Rekstur Landssímans leiðir í
ljós,að ef vel er hugsað um rekstur opinberra fyrirtækja geta þau skilað góðri
afkomu. Enga nauðsyn ber því til,að einkavæða Landssímans til þess að bæta
reksturinn.
Hér fer á eftir frétt Mbl. um rekstur Símans sl. ár:
Hagnaður varð af
rekstri samstæðu Landssíma Íslands hf. á árinu 2003 að fjárhæð 2.145 milljónir
króna samkvæmt rekstrarreikningi félagsins. Til samanburðar var hagnaður fyrir
árið 2002 2.161 milljónir króna, sem er sambærilegur á milli ára. Rekstrartekjur
á árinu voru 18.762 milljónir króna samanborið við 17.958 milljónir króna á
árinu áður. Rekstrargjöld voru 11.381 milljónir króna árið 2003 en voru 10.849
milljónir króna árið 2002.
Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 7.381 m.kr. á
árinu eða 39,3% samanborið við 7.109 m.kr. árið áður eða 39,6%. Veltufé frá
rekstri var 6.810 m.kr, eða um 36% af rekstrartekjum. Arðsemi eigin fjár var
14,8% fyrir árið 2003 en var 15,2% árið 2002.
Rekstrartekjur Símans hækkuðu um 804 milljónir króna á milli ára, að því er
fram kemur í frétt frá fyrirtækinu. Rekstrartekjur af umferð lækkuðu lítillega
en rekstrartekjur af stofn- og afnotagjöldum hækkuðu á árinu. Aðrar tekjur
hækkuðu einnig. Tekjur af talsímaþjónustu drógust saman en tekjur af farsíma- og
gangaflutningsþjónustu hækkuðu á milli ára.
Rekstrargjöld samstæðunnar hækkuðu um 532 m.kr. á milli ára, eða úr 10.849
m.kr. í 11.381 m.kr. Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 261 m.kr. á milli ára,
fjarskiptakostnaður og þjónusta hækkaði um rúmar 497 m.kr. úr 3.391 m.kr. í
3.888 m.kr. Annar rekstrarkostnaður lækkaði um rúmar 226 m.kr.
Afskriftir á árinu 2003 voru 4.464 m.kr. en voru 4.641 m.kr. árið 2002.
Afskriftir lækka á milli ára og munar þar mest um afskriftir af útlandakerfum,
NMT-farsímakerfinu og af ýmsum tölvu- og hugbúnaðarkerfum. Bókfærð hlutdeild í
afkomu dótturfélaga var jákvæð um 41 m.kr. Hlutdeild félagsins í eigin fé
dótturfélaganna nam 409 m.kr. í lok ársins. Þrjú félög eru 100% í eigu Símans en
þau eru Skíma hf., Tæknivörur ehf. og Íslandsvefir ehf. auk tveggja félaga sem
Síminn á meirihluta í. Þau eru Anza hf. og Grunnur Gagnalausnir ehf. Félagið á í
5 hlutdeildarfélögum. Á árinu nam fjárfesting í þeim samtals 453 m.kr. en þar
vegur mest fjárfesting Símans í Farice hf. að fjárhæð 395 m.kr. Bókfærð
hlutdeild í afkomu á árinu var neikvæð um 25 m.kr. Síminn átti í lok árs
eignarhluti í 9 öðrum íslenskum félögum og 5 erlendum.
Fjárfestingar samstæðunnar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 3.473 m.kr. á
árinu. Megin hluti fjárfestinganna var í almenna fjarskiptanetinu en þær námu
1.568 m.kr. samanborið við 1.779 m.kr. frá fyrra ári. Fjárfestingar hafa ávallt
verið miklar hjá félaginu enda krefst rekstur fjarskiptaþjónustu mikilla
fjárfestinga í tækjum og búnaði. Félagið skuldbatt sig í október 2003 til að
kaupa 10,6% hlut í Carrera Global Investment Ltd. að verðmæti 3.800.000 €. Í
árslok var handsalaður samningur við Flugmálastjórn á sölu á flug- og
skipaþjónustu sem félagið hefur veitt til Alþjóða flugmálaþjónustunnar og
Siglingamálastofnunar Íslands. Á árinu var stofnað Eignarhaldsfélagið Farice
ehf. og yfirtók það eignarhluti íslenska félaga í Farice hf., hlutur Símans er
41,7%. Í árslok seldi félagið meginhluta sinn í sæstrengjunum Cantat-3 og Canus
til Eignarhaldsfélagsins Farice ehf.
Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir samstæðunnar 28.661 m.kr. og
eigið fé félagsins 16.058 m.kr. þann 31. desember 2003. Eiginfjárhlutfall
félagsins var 56% í árslok. Handbært fé í árslok lækkaði frá því árinu áður úr
3.925 m.kr. í 2.283 m.kr. Síminn greiddi 2.110 m. kr. arð á árinu 2003 eða 30%
og afborganir langtímalána námu 3.366 m.kr. Hlutafé félagsins í árslok 2003 nam
7.036 m.kr. og samkvæmt hluthafaskrá eru skráðir hluthafar 1.238. Tæp 99%
hlutafjár er í eigu ríkissjóðs.
Rekstur Símans er í jafnvægi, tekjur aukast en gjöldin hækka lítillega.
Félagið hefur sterka fjárhagsstöðu og góða markaðshlutdeild en gert hefur verið
ráð að samkeppni harðni á árinu 2004.
Stjórn félagsins samþykkti reikninginn á stjórnarfundi síðdegis í gær.
Tillaga um 30% arðgreiðslu til hluthafa mun verða borin upp á aðalfundi
félagsins sem mun leiða til þess að 2.110 m.kr. er greiddur sem arður til
hluthafa.
Aðalfundur félagsins verður haldinn mánudaginn 22. mars 2004.
|