Ríkisstjórnin tilkynnti 19.nóvember sl.,að tekjuskattur einstaklinga mundi lækka um eitt prósentustig næsta ár og að frumvarp þar um yrði lagt fram.Er þetta tilkynnt einu ári síðar en lofað var í þingkosningunum 2003 en þá var því lofað,að mál þetta yrði lagt fyrir alþingi strax haustið 2003. Við þessa breytingu lækkar tekjuskattur einstaklinga úr 38,5% í 37,5%.En tekjuskattur fyrirtækja er mikið lægri eða 18% Þessar tölur tala sínu máli. Ríkisstjórnin hlífir fyrirtækjunum á kostnað almennings.Ríkisstjórnin lét það hafa forgang að stórlækka tekjuskatt fyrirtækja á meðan tekjuskattur einstaklinga var í raun hækkaður.En það er það sem gerst hefur undanfarin ár.Tekjuskattur einstaklinga hefur í raun hækkað ár frá ári,þar eð skattleysismörkin hafa ekki fylgt þróun verðlags og kaupgjalds.Það er vissulega kominn tími til þess að skila til baka einhverju af þeim hækkunum.
Á að skera niður velferðarkerfið?
Tekjuskattslækkun ríkisstjórnarinnar er mjög umdeild meðal hagfræðinga.Sumir þeirra hafa varað við henni á þenslutímum eins og nú ríkja á Íslandi.En aðrir eins og Tryggvi Þór Herbertsson segja,að ef útgjöld ríkisins séu skorin niður á móti,sé skattalækkun réttlætanleg og til góðs. En það er einmitt það,sem margir óttast nú,að skorið verði niður í velferðarkerfinu vegna skattalækkunar ríkisstjórnarinnar.Vinstri grænir óttast það mjög. Á meðan kjaradeila kennara og sveitarfélaganna stóð töluðu ráðherrar mikið um það,að ekki mætti ógna “ stöðugleikanum” í efnahagsmálum með of miklum kauphækkunum eða of mikilli útgjaldaaukningu hins opinbera.Mörgum þykir það því skjóta skökku við,að um leið og búið sé að semja við kennara þá geti ríkisstjórnin tilkynnt,að hún ætli að auka útgjöld ríkisins á næstu 3 árum um 22 milljarða.Er hætt við,að þetta þýði stórfelldan niðurskurð í velferðarkerfinu.
Lítil leiðrétting á skattleysismörkum
Ætlunin er að hækka skattleysismörkin lítillega samhliða lækkun tekjuskatts einstaklinga. Eiga skattleysismörkin að hækka úr 71.270 kr. í 85.837 kr. á mánuði árið 2007. Er þetta mjög lítil hækkun.Ef skattleysismörkin hefðu fylgt verðlagshækkunum frá árinu 1988 væru þau í dag 99.557 kr. en ef þau hefðu fylgt launahækkunum ættu þau að vera 114.956 kr. í dag. Boðuð hækkun skattleysismarka nær því ekki einu sinni hækkun vegna verðlagshækkana.Enn eiga skattgreiðendur því mikla leiðréttingu inni hjá stjórnvöldum.Þó ber að fagna þessu litla skrefi til leiðréttingar. En betur má ef duga skal.
Barnabætur:Hluta af ránsfengnum skilað
Eins er með breytingar á barnabótum. Boðað er,að barnabætur eigi að hækka um 2,4 milljarða í áföngum en ríkisstjórnin hefur skert barnabætur um 11,5 milljarða frá árinu 1995 þegar núverandi stjórnarflokkar tóku við völdum. Ríkisstjórnin er því aðeins að skila litlum hluta af ránsfengnum.Kosningaloforð Framsóknarflokksins um að afnema tekjutengingu barnabóta allra barna innan 18 ára aldurs hefur enn ekki verið efnt og það verður ekki efnt með boðuðum breytingum.Sama er að segja um barnakortin,sem Framsókn lofaði.Það kosningaloforð var svikið.
Boðað er,að tekjuskattur einstaklinga eigi að lækka um 1% 2006 og síðan um 2% 2007, á kosningaári.
Kemur þeim tekjuhæstu best
Miklar umræður hafa orðið að undanförnu um boðaðar skattabreytingar ríkisstjórnarinnar. Bent er réttilega á,að prósentulækkun á tekjuskatti komi þeim efnamestu og tekjuhæstu best. Þeir fái mesta lækkun á tekjuskatti en þeir efnaminnstu,er hafa lágar tekjur, fái minnsta lækkun og jafnvel enga.Réttlátasta skattabreytingin sé því sú,að stórhækka skattleysismörkin og lækka virðisaukaskatt á matvælum. Ég er sammála þessu sjónarmiði.Hins vegar ber að líta á það,að ríkisstjórnin lofaði prósentulækkun á tekjuskatti fyrir síðustu kosningar og á því að standa við það. Framsóknarflokkurinn lofaði því jafnframt fyrir kosningar,að skera ekki niður í velferðarkerfinu.Ég tel,að ekki megi skera neitt niður í heilbrigðiskerfinu,tryggingakerfinu eða menntakerfinu. Þvert á móti þarf að auka framlög til þessara málaflokka. Það verður að bæta kjör aldraðra og öryrkja og leysa fjárhagsvanda Landsspítala Háskólasjúkrahúss. Menntun þarf að efla í landinu og tryggja kennurum mannsæmandi laun. Það er alger forsenda skattalækkana að staðið sé vörð um þessa málaflokka og þeir efldir.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 15.des. 2004
|