Það er ekki ofmælt,að Gylfi Þ.Gíslason hafi verið áhrifamesti leiðtogi Alþýðuflokksins þann tíma,sem hann var í forustu fyrir flokkinn.Hann var kjörinn þingmaður Alþýðuflokksins aðeins 29 ára gamall og sat á þingi fyrir flokkinn í rúma 3 áratugi.Hann var ráðherra Alþýðuflokksins í 15 ár og formaður flokksins í 6 ár.Hann var um langt skeið helsti fræðimaður flokksins á sviði jafnaðarstefnunnar og stefnumála Alþýðuflokksins.Hann skrifaði bókina Jafnaðarstefnan en einnig fjölda rita og blaðagreina um jafnaðarstefnuna og málefni Alþýðuflokksins.
Ég kynntist Gylfa árið 1949,er ég gekk í Alþýðuflokkinn.Gylfi var þá róttækur ungur þingmaður og við ungir jafnaðarmenn litum upp til hans. Jafnaðarstefna Gylfa varð okkar biblía.Hann gaf sér ávallt tíma til þess að ræða við unga jafnaðarmenn og hafði mikil áhrif,ekki aðeins sem stjórnmálamaður heldur einnig sem fræðari.
Ég átti þess kost að vinna mjög náið með Gylfa um langt skeið.Sem blaðamaður á Alþýðublaðinu frá árinu 1953 hafði ég nær daglegt samband við hann sem þingmann og forustumann flokksins.Og sem starfsmaður í viðskiptaráðuneytinu um langt árabil var ég í daglegu sambandi við Gylfa sem viðskiptaráðherra. Auk þess áttum við mikið og náið samstarf innan Alþýðufloksins.Það var unun að vinna með Gylfa.Betri samstarfsmann var ekki unnt að hugsa sér.
Gylfi var mjög flínkur stjórnmálamaður.Hann var mjög vel að sér á öllum sviðum stjórnmála, en starfaði einkum á sviði efnahagsmála og menntamála. Hann var hagfræðingur að mennt.Hann var góður ræðumaður, mjög ritfær og afkastamikill.En þó hann starfaði mikið að viðskipta- og efnahagsmálum var hugur hans einnig mikið bundinn við listir og menningarmál.Hann var mjög listrænn í sér og hafði mikinn áhuga á tónlist. Hann var góður lagasmiður og samdi nokkur mjög falleg lög.
Áhrif Gylfa á íslensk stjórnmál voru mjög víðtæk.Víða má sjá spor hans í stjórnmála-og viðskiptasögu þjóðarinnar. Hann hóf afnám innflutningshafta sem viðskiptaráðherra í viðreisnarstjórn Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins 1959-1971.Hann átti stærsta þáttinn í því,að Ísland sótti um inngöngu í EFTA 1970 og gekk frá aðild Íslands að þeim samtökum sem viðskiptaráðherra.Segja má því,að Gylfi Þ.Gíslason hafi átt stóran þátt í því að innleiða viðskiptafrelsi hér á landi. Hann hafði einnig mikil áhrif á mennta- og menningarmál sem menntamálaráðherra og átti m.a. mikinn þátt í endurheimt handritanna frá Danmörku en þau komu hingað til lands í menntamálaráðherratíð hans. Sem formaður Alþýðuflokksins og forustumaður um langt skeið hafði Gylfi mjög mikil áhrif. Hann átti verulegan þátt í því að gera Alþýðuflokkinn að nútímalegum jafnaðarmannaflokki.
Gylfi var prófessor í rekstrarhagfræði við viðskiptadeild Háskóla Ísland um langt skeið. Hann var mjög góður kennari og fræðimaður. Átti ég þess kost að njóta kennslu hans við viðskiptadeild Háskólans.
Með fráfalli Gylfa Þ.Gíslasonar er fallinn frá mjög merkur stjórnmálamaður og fræðimaður.Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að starfa með Gylfa og eignast vinskap hans.Ég og Dagrún, kona mín, vottum eftirlifandi eiginkonu hans,Guðrúnu Vilmundardóttur og fjölskyldu innilega samúð okkar. Drottinn blessi minningu Gylfa Þ.Gíslasonar.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 27.ágúst 2004
|