Miklar umræður hafa átt sér stað í fjölmiðlum að undanförnu um Kárahnjúkavirkjun. Hefur verið deilt um það hvort fyrrverandi iðnaðarráðherra,Valgerður Sverrisdóttir, hafi stungið undir stól mikilvægri skýrslu frá Grími Björnssyni jarðeðlisfræðingi um sprungur við og undir stíflustæðunum við Kárahnjúka..Skýrslu þessa ritaði Grímur í febrúar 2002 eða áður en Alþingi tók ákvörðun um að reisa Kárahnjúkavirkjun.Alþingismenn hafa gagnrýnt, að skýrsla þessi skyldi ekki lögð fyrir Alþingi áður en ákvörðun var tekin um virkjun.Skýrslan var lögð fyrir orkumálastjóra,sem skýrði iðnaðarráðuneytinu frá henni, svo og Landsvirkjun.Skýrslan var talin mjög mikilkvæg, m.a. vegna jarðhræringa á stíflustæðinu. Stjórnarandstaðan telur, að iðnaðaráðherra hefði átt að leggja þessa skýrslu fyrir Alþingi áður en ákvörðun var tekin um virkjun. Valgerður Sverrisdóttir segir, að hún hafi aldrei séð skýrsluna. Embættismenn í ráðuneyti hennar hafi fjallað um hana en hún hafi ekki komið inn á borð til sín.Össur Skarphéðinsson,aþingismaður Samfylkingarinnar segir, að Valgerður hafi vitað af skýrslunni og að hún beri ábyrgð á því, að skýrslan var ekki lögð fyrir Alþingi. Er Össur mjög þungorður í garð Valgerðar út af máli þessu og telur hann, að Valgerður hafi sem iðnaðarráðherra borið fulla ábyrgð á máli þessu og ekki þýði að skýla sér á bak við embættismenn í ráðuneytinu í málinu.
Deilur um málið í iðnaðarnefnd
Iðnaðarnefnd alþingis hefur fjallað um málið og telja stjórnarliðar í nefndinni,að fullnægjandi skýringar hafi komið fram varðandi skýrslu Gríms en stjórnarandstæðingar í nefndinni telja málinu hvergi nærri lokið. Þeir telja,að leggja hefði átt skýrsluna fyrir Alþingi. Stjórnarliðar halda því nú fram, að ekki hafi verið svo mikilvæg efnisatriði í skýrslunni, að nauðsynlegt hafi verið að leggja hana fyrir Alþingi. Öll atriði skýrslunnar utan eitt hafi verið upplýst eða gefin nægileg skýring á þeim 2002.
Ráðherra varð á í messunni
Mér virðist, að í þessu máli hafi iðnaðarráðherra þáverandi orðið á í messunni. Kárahnjúkavirkjun er einhver mikilvægasta framkvæmd Íslandssögunnar og mjög dýr framkvæmd. Nauðsynlegt er, að fyllsta öryggis sé gætt við allar framkvæmdir virkjunarinnar og ekki síst við stíflugerð. Sambærilegar stíflur erlendis hafa lekið meira en ásættanlegt hefur verið.Þegar Grímur Björnsson lagði fram skýrslu sína um sprungur í stíflu Kárahnjúkavirkjunar,hættu á stíflurofi o.fl.og sendi orkumálastjóra sá orkumálastjóri strax, að málið var mjög alvarlegt.Hann merkti skýrsluna sem trúnaðarmál en hann lagði skýrsluna þegar fyrir Landsvirkjun og iðnaðarráðuneytið. Hann sinnti þar embættisskyldu sinni.Embættismenn iðnaðarráðuneytis fóru yfir athugasemdir Gríms Björnssonar í skýrslu hans. Það var ekki þeirra að ákveða hvort skýrslan færi fyrir alþingi eða ríkisstjórn. Það var iðnaðarráðherra að ákveða það.Fyrrverandi iðnaðaráðherra segir, að athugasemdir Gríms hafi ekki verið taldar mjög mikilvægar og að fjallað hefði verið um flestar þeirra áður. En ráðherra lagði sjálfur ekkert mat á skýrsluna. Þar brást ráðherra. Hann hefði átt að leggja skýrsluna fyrir Alþingi og jafnvel fyrir ríkisstjórn áður en Alþingi tók ákvörðun un virkjun.
Víkur þrisvar að Alþingi
En átti skýrsla Gríms erindi inn á Alþingi. Já,ég tel svo vera. Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur virðist skrifa athugasemdir sínar beinlínis vegna þess, að Alþingi var að taka virkjunina til afgreiðslu. Á þremur stöðum í skýrslunni víkur hann að afgreiðslu Alþingis og segir, að hann leggi athugasemdir sínar fram vegna væntanlegrar afgreiðslu Alþingis. Grímur segir m.a.: “(Því) telur undirritaður hættumat það, sem kynnt er í matsskýrslu Landsvirkjunar algerlega óviðunandi, líkur á stíflurofi séu umtalsverðar og meðan svo er eigi virkjunin ekkert erindi inn á Alþingi.”Þetta eru þung orð og alvarleg. Ljóst er af þeim, að þarna er Grímur að vara við því að Alþingi afgreiði virkjun Kárahnjúka miðað við þær aðstæður,sem hann taldi þá vera.Með tilliti til þess,að Grímur vísar beinlínis til væntanlegrar afgreiðslu Alþingis á máli þessu bar iðnaðarráðherra skylda til þess að leggja skýrslu hans fyrir Alþingi. Það var ekki ráðherra eða starfsmanna hans að ákveða hvort athugasemdirnar ættu erindi við alþingismenn. Alþingismenn áttu sjálfir að fá tækifæri til þess að meta athugasemdirnar. Það er ljóst,að skýrslu Gríms var haldið frá Alþingi. Skýrslan þótti óheppileg þegar átti að fara að samþykkja virkjunina. Ríkisstjórninni hefur þótt hætta á því ,að skýrslan gæti valdið því, að einhverjir þingmenn sem voru hlynntir virkjun, mundu snúast gegn henni vegna athugasemda Gríms.Iðnaðarráðherra,fyrrverandi,ber fulla ábyrgð á þessum vinnubrögðum.
Björgvin Guðmundsson