Fjölmiðlar hafa undanfarið velt vöngum yfir því hvort Davíð Oddsson,forsætisráðherra muni hætta í stjórnmálum,er hann lætur af embætti forsætisráðherra næsta haust. Eru flestir þeirrar skoðunar,að svo muni verða. Telja fjölmiðlar að “ eftirlaunamálið” sé til marks um það,að Davíð sé að hætta. Hann vilji tryggja sér góð eftirlaun er hann hætti í stjórnmálum!
Þegar Davíð tilkynnti fyrst,að hann mundi víkja fyrir Halldóri Ásgrímssyni sem forsætisráðherra haustið 2004 gaf hann í skyn,að hann mundi þó halda áfram í pólitík. Töldu þá flestir,að hann hygðist verða utanríkisráðherra eða fjármálaráðherra,er Halldór tæki við embætti forsætisráðherra. Nú telja flestir,að Davíð muni hætta í stjórninni og þess vegna hafi verið lögð áhersla á það að knýja í gegn eftirlaunafrumvarp ráðherra og þingmanna til þess að tryggja Davíð betri eftirlaun.
Hvað gerist?
Ef Davíð hættir í ríkisstjórninni mun Geir Haarde væntanlega taka við embætti utanríkisráðherra. Næsta spurning er sú hvort Davíð muni þá einnig láta af embætti formanns flokksins. Geri hann það tekur Geir Haarde einnig við því, þar eð hann er varaformaður. En hugsanlegt er að Davíð haldi formennskunni um sinn þó hann fari úr stjórninni. Alla vega er þó ljóst,að það styttist í að Geir Haarde taki við starfi leiðtoga Sjálfstæðisflokksins. Hvaða afleiðingar mun það hafa? Það mun geta valdið miklum breytingum. Geir Haarde verður ekki eins harður leiðtogi og Davíð hefur verið. Það verður ekki eins mikill agi undir hans stjórn. Geir Haarde er heldur ekki eins vinsæll og Davíð enda þótt Geir hafi unnið mikið á og styrkt sig verulega í sessi að undanförnu
Hvers vegna nú?
Fréttablaðið skrifar langa grein um eftirlaunafrumvarpið og veltir vöngum yfir því hvers vegna Davíð hyggist hætta á næsta ári. Gerir blaðið því skóna,að ef til vill sé það vegna þess,að Davíð hafi tapað kosningunum og/eða vegna þess að hann hafi samið af sér við Halldór og misst forsætisráðherrastólinn.Hvað sem þeim vangaveltum líður er ljóst,að Davíð er búinn að vera mjög lengi í stjórnmálum og lengi forsætisráðherra og sjálfsagt farinn að þreytast. Það getur enginn verið nema ákveðinn tíma í þessum störfum. Davíð hefur því sjálfsagt orðið hug á því að breyta til.
.
Afstaðan til ESB
Sumir telja,að afstaða Sjálfstæðisflokksins til ESB muni breytast við leiðtogaskipti. Ólíklegt er að það gerist í einu vetfangi. En þó er líklegt,að Geir Haarde muni hafa jákvæðari afstöðu til ESB en Davíð hefur haft og sennilega muni hann fljótlega sveigjast til aðildar að Evrópusambandinu. Í öllu falli er ljóst,að leiðtogaskipti í Sjálfstæðisflokknum munu hafa verulegar breytingar í för með sér.
Björgvin Guðmundsson |