Ýmsir talsmenn Sjálfstæðisflokksins tala mjög fjálglega um stjórnarforustutímabil Sjálfstæðisflokksins frá 1991 og segja,að aldrei hafi verið annar eins uppgangur á Íslandi,aldrei hafi verið eins mikill hagvöxtur. Slíkar yfirlýsingar má t.d. heyra reglulega hjá talsmanni Sjálfstæðisflokksins á Útvarpi Sögu.En er þetta rétt? Svarið er nei.Undanfarin ár hefur að vísu verið góðæri hér á landi.En þó hefur hagvöxtur aðeins verið hóflegur miðað við fyrri hagvaxtarskeið.Á tímabilinu 1991-1995 var enginn hagvöxtur hér á landi enda hafði þá verið samdráttur í aflaheimildum,allt frá 1988.Eftir 1995 byrjaði uppsveifla hér,sem hélst í hendur við almenna uppsveiflu efnahagslífs Vesturlanda.En ef litið er á hagvöxt á Íslandi 1996-2000 í samanburði við önnur OECD ríki kemur í ljós,að hagvöxturinn hér á þessum tíma er aðeins nálægt meðallagi hagvaxtar OECD þjóða. Á þessu tímabili er Ísland í 7.sæti OECD ríkja að því er hagvöxt varðar.
SLAKUR HAGVÖXTUR 1991-2002
Ef litið er á hagvöxt áratugsins 1991-2002, þ.e. áratug stjórnarforustu Sjálfstæðisflokksins, kemur í ljós,að meðaltals hagvöxtur á ári á mann er tæp 2% á þessu tímabili.. Á þessum áratug er hagvöxtur á Íslandi slakur miðað við hagvöxt annarra OECD þjóða. Ísland er í 16.sæti OECD ríkja á þessu tímabili! Af þessu sést, að það stenst ekki,sem talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt,að hér hafi þá verið meiri uppgangstími en áður og meiri hagvöxtur en í öðrum ríkjum OECD.Staðreyndir leiða allt annað í ljós.
MESTUR UPPGANGUR 1971-1980
Það þarf að fara allt aftur til tímabilsins 1971-1980 til þess að finna mesta uppgangstímann í efnahagsmálum. En á því tímabili jókst hagvöxtur um rúm 5% ,þ.e. meðaltals hagvöxtur á ári á mann. Og á því tímabili jókst kaupmáttur um 5,7% á ári,þ.e. kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann,meðalbreyting á ári.En kaupmáttur ráðstöfunartekna sl. áratug ( 1991-2002),þ.e. meðalbreyting á ári á mann, hefur aðeins aukist um 1,8%.Er það mikið minni aukning en á áratugnum 1971-1980. Þetta eru staðreyndir málsins.Sjá nánar á heimasíðu minni: www.gudmundsson.net Goðsögnin um afrek Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum á stjórnartíma flokksins frá 1991 stenst því ekki. ( Tölur um hagvöxt og aukningu kaupmáttar eru byggðar á skýrslu Stefán Ólafssonar prófessors frá 2003)
HVER KOM MEÐ FRELSIÐ?
Talsmenn Sjálfstæðisflokksins guma einnig mikið af því,að Sjálfstæðisflokkurinn hafi innleitt frelsið í íslenskt viðskiptalíf. En það er einnig rangt. Það var EES –samningurinn sem færði okkur frelsið.Ég segi ekki,að við höfum fengið EES-samninginn sendan á telefax frá Brussel. En frelsið kom alla vega frá Brussel,þ.e. frá Evrópusambandinu. Sjálfstæðisflokkurinn var í fyrstu algerlega á móti því,að Ísland gerðist aðili að EES og ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði mátt ráða værum við ekki aðilar að EES samningnum.Það þurfti harða baráttu á Alþingi til þess að koma EES samningnum í gegnum þingið. Alþýðuflokkurinn hafði forustu í baráttunni fyrir aðild Íslands að EES og hafði sigur í þeirri baráttu.
EINKAVÆÐING BANKANNA
Sjálfstæðisflokkurinn má hins vegar þakka sér einkavæðingu bankanna enda þótt ekki megi á milli sjá hvor stjórnarflokkanna hafi verið ólmari í þá einkavæðingu. Framsókn, áður flokkur samvinnustefnunnar, hefur keppst við að koma bönkunum í einkaeign.Einkavæðingin er efni í aðra grein og verður fjallað um hana síðar.
Björgvin Guðmundsson
viðskiptafræðingur
Netfang: [email protected]
Birt í Mbl. 3.mars 2004
(Sjá súlurit um hagvöxt með greininni "Mestur hagvöxtur í tíð Ólafs Jóhannessonar ..............." |