Ég hefi lengi alið þann draum með mér,að jafnaðarmenn á Íslandi gætu sameinast í einum sterkum flokki eins og á hinum Norðurlöndunum. Klofningur jafnaðarmanna á Íslandi hefur komið í veg fyrir að jafnaðarmenn hér hefðu jafnmikil áhrif og þeir hafa í Vestur-Evrópu. Nú hillir undir það,að þessi draumur sé að rætast. Skoðanakannanir síðustu mánuði hafa sýnt,að Samfylkingin getur fengið mikið fylgi í næstu þingkosningum.Ef það gengur eftir hefur myndast hér stór og sterkur jafnaðarmannaflokkur eins og á hinum Norðurlöndunum .Ljóst er að ef Vinstri grænir hefðu borið gæfu til þess að taka þátt í sameiningu jafnaðarmanna hefði hér myndast 40-45 % flokkur.
Tilkoma Samfylkingarinnar og mikill stuðningur við hana gerbreytir hinu pólitíska landslagi. Áður hefur Sjálfstæðisflokkurinn einn haft sérstöðu og alltaf getað valið sér samstarfsflokka og oftast ráðið mestu um myndun ríkisstjórnar. Nú mun Samfylkingin væntanlega geta myndað ríkisstjórn og valið sér samstarfsaðila. Framsókn hefur getað leikið þann leik í stjórnarmyndunum að halla sér ýmist til hægri eða vinstri eftir hentugleikum og hefur jafnvel getað fengið stól forsætisráðherra eftir mikinn kosningaósigur eins og gerðist t.d. 1978. Ljóst er, að Framsókn hefur ætlað að leika þennan leik á ný nú,þar eð flokksþing Framsóknar samþykkti að sækjast eftir forsætisráðherranum í næstu ríkisstjórn!Sú ráðagerð heppnast ekki.Samfylkingin býður sjálf fram forsætisráðherraefni,Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
Í undanförnum alþingiskosningum hafa talsmenn Framsóknarflokksins sagt kjósendum,að þeir gætu treyst flokknum,hann væri áreiðanlegur og traustur flokkur.Framsókn væri kletturinn í hafinu. En hver er reynslan í þeim efnum? Hefur Framsókn staðið við kosningaloforð sín? Hefur flokkurinn reynst stefnu sinni um samhjálp og félagshyggju trúr?Lítum aðeins á staðreyndir málsins.
Í síðustu alþingiskosningum lofaði Framsóknarflokkurinn barnakortum,sem áttu að tryggja hverju einasta barni 30 þús. kr. barnabætur á ári ( verðlag 1999).Barnakortin komu aldrei. Og barnabætur hafa lækkað mikið en ekki hækkað. Í síðustu kosningum lofaði Framsókn skattalækkun. En skattar almennings,tekjuskattar einstaklinga, hafa hækkað þegar tekið er tillit til skattleysismarka,sem ekki hafa fylgt launaþróun. Félag eldri borgara hefur sýnt fram á það með tölum,að skattar aldraðra og lágtekjufólks hafa hækkað í raun í tíð núverandi ríkisstjórnar.Lífeyrir aldraðara og öryrkja hefur rýrnað í samanburði við almenna launaþróun í landinu þrátt fyrir loforð Framsóknar og ríkisstjórnarinnar um að tryggja kjör þessara hópa.Smánarbætur aldraðra og öryrkja eru skattlagðar. Félagslega húsnæðiskerfið hefur verið lagt í rúst:Verkamannabústaðir og aðrar félagslegar íbúðir lagðar niður.Hinu rangláta kvótakerfi, sem gerir þá ríku ríkari og fátæku fátækari, hefur verið viðhaldið.Kvótakóngar fá óáreittir að selja kvóta sína og fara út úr greininni með milljarðagróða. Og þannig mætti áfram telja.
Framsóknarflokkurinn hefur ekki staðið við kosningaloforð sín frá síðustu alþingiskosningum. Framsókn hefur heldur ekki reynst trú stefnu sinni um samhjálp og félagshyggju. Framsókn hefur lagt meiri áherslu á að halda völdum,vera í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og tryggja Framsóknarmönnum embætti en að framkvæma stefnu samhjálpar og félagshyggju.
Framsóknarflokkurinn er því ekki flokkur trausts og áreiðanleika.Hann er flokkur svikinna kosningaloforða. Hann er flokkur,sem hefur svikið upphaflega stefnu sína um samhjálp og félagshyggju. Það er ekki unnt að treysta slíkum flokki.Gegnum árin hefur Framsókn einnig reynst alger hentistefnuflokkur
Framkoma forustu Framsóknarflokksins við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Reykjavík afhjúpaði Framsókn sem flokk valdníðslu og kúgunar. Það átti að kúga Ingibjörgu Sólrúnu til þess að hætta við framboð til varaþingsætis í Reykjavík vegna þess að formaður flokksins ætlaði að bjóða sig fram í Reykjavík. Ingibjörgu Sólrúnu voru settir afarkostir,þröngir tímafrestir þegar tími var nægur og þannig átti að kúga hana og brjóta niður. En hún lét ekki kúga sig. Hún taldi það mannréttindi að mega bjóða sig fram til Alþingis en hún var reiðubúinn til þess að gegna embætti borgarstjóra út kjörtímabilið og því bauð hún sig aðeins fram í varasæti. Framsókn, undir forustu Halldórs Ásgrímssonar, krafðist þess, að Ingibjörg Sólrún hætti við framboðið. Ingibjörg Sólrún lét ekki kúga sig til þess en kaus heldur að standa upp úr stól borgarstjóra.Með því sýndi hún mikið hugrekki.Reykvíkingar geta” þakkað” Framsóknarflokknum bolabrögðin gegn Ingibjörgu Sólrúnu í kosningunum 10.mai n.k. Reykvíkingar geta gert varamannssætið að aðalsæti.Þeir geta gert Ingibjörgu Sólrúnu að þingmanni Reykvíkinga.
Björgvin Guðmundsson,
fyrrverandi borgarfulltrúi
Alþýðuflokksins
Birt í Mbl. 2003 |