Sverrir Hermannsson,fyrrverandi alþingismaður og ráðherra,hefur hreyft þeirri athyglisverðu hugmynd í blaðagrein,að það verði sett í stjórnarskrá Íslands,að Ísland fari ekki með ófriði á hendur öðrum þjóðum.Hér er um stórmerka tillögu að ræða og skal undir hana tekið.
SÉRSTAÐA ÍSLANDS VIÐURKENND
Ísland hefur ávallt verið friðelskandi þjóð og þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið var það áréttað af Íslands hálfu,að Ísland hefði engan her og mundi ekki stofna hér. Var þessi sérstaða Íslands viðurkennd. Menn höfðu ekki hugmyndaflug á þessum tíma til þess að láta sér detta það í hug,að þrátt fyrir þessa sérstöðu Íslands, færi Ísland að lýsa yfir stuðningi við stríð gegn annarri þjóð. En nú hefur það gerst. Núverandi ríkisstjórn Íslands lýsti yfir stuðningi við stríð Bandaríkjanna og Bretlands gegn Írak. Ákvörðun um þetta var tekin án þess að málið væri lagt fyrir utanríkismálanefnd eða alþingi. En skylt er að leggja mikilvæg utanríkismál fyrir utanríkismálanefnd. Er ljóst,að landslög hafa verið brotin,þegar ákveðið var að styðja innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak án samþykkis alþingis.
ÖRUGGARA AÐ HAFA ÞETTA Í STJÓRNARSKRÁNNI
Reynslan kennir okkur að það er öruggara að hafa það í stjórnarskránni að Ísland megi ekki fara með ófriði á hendur annarri þjóð.Misvitrir stjórnmálamenn geta leitt þjóðina út í ófrið enda þótt Íslendingar hafi engan her. Sporin hræða í þessu efni.
Björgvin Guðmundsson
“Núverandi ríkisstjórn lýsti yfir stuðningi við stríð Bandaríkjanna og Bretlands gegn Írak. Ákvörðun um þetta var tekin án þess að málið væri lagt fyrir utanríkismálanefnd eða alþingi.” |