Bush,Bandaríkjaforseti,hringdi í forsætisráðherra Íslands 15.apríl sl. en forsætisráðherra er staddur í New York.Þakkaði Bush Íslandi stuðninginn við innrásina í Írak. Einnig ræddi Bush varnarmálin við forsætisráðherra.
Betra hefði verið fyrir forsætisráðherra,að Bush hefði ekki minnst á innrásina í Írak og stuðninginn við hana.Samkvæmt skoðanakönnunum voru 80% Íslendinga andvígir stuðningi Íslands við innrásina. Ákvörðun forsætisráðherra og utanríkisráðherra um stuðning við innrásina var ólögleg.Málið var ekki lagt fyrir utanríkismálanefnd eins og skylt er samkvæmt þingsköpum alþingis en leggja skal öll mikilvæg utanríkismál fyrir nefndina. Málið var heldur ekki lagt fyrir alþingi. Ekki liggur einu sinni fyrir,að málið hafi verið lagt formlega fyrir ríkisstjórn.
Rannsaka þarf málið
Í Danmörku fara nú fram umræður um það að láta fara fram rannsókn á því hvers vegna danska ríkisstjórnin studdi innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak. Er talið,að danski forsætisráðherrann hafi sagt dönsku þjóðinni ósatt um málið. Enn meiri ástæða er til þess að láta fara fram rannsókn hér á landi á því hvers vegna Ísland studdi innrásina í Írak. Ísland hefur aldrei haft her og hefur aldrei stutt hernaðaraðgerðir ekki nema á vegum Sameinuðu þjóðanna. Innrásin í Írak var ólögleg samkvæmt alþjóðalögum, þar eð Öryggisráð Sþ. samþykkti ekki hernaðaraðgerðirnar.
Samkvæmt þingsköpum alþingis getur alþingi skipað rannsóknarnefndir. Ég legg til,að slík nefnd verði skipuð til þess að rannsaka ákvarðanatöku um stuðning Íslands við innrásina í Írak.
Ekkert nýtt í varnarmálunum
Bush ræddi einnig varnarmál Íslands við íslenska forsætisráðherrann. Ekkert nýtt kom fram um það efni. Sjálfstæðisflokkurinn má vart vatni halda yfir því,að Bush skyldi hringja í Davíð. Bush hringdi til þess að segja ekki neitt. Þetta var kurteisissímtal. Hann sagði,að endurskoðun stæði yfir á varnarviðbúnaði Bandaríkjanna í Evrópu.Það er löngu komið fram. Og síðan mælti hann nokkur kurteisisorð um að Bandaríkin mætu mikils varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna! Þetta er almennt “kjaftæði”.Ekkert kom fram um það hvort herþotur yrðu áfram hér á landi eða hvort nokkurt varnarlið yrði hér yfirleitt. Úr því íslenski forsætisráðherrann var á ferð í Bandaríkjunum hefði verið eðlilegt,að hann hefði heimsótt Bandaríkjaforseta. En Bush hefur ekki viljað taka á móti Davíð enda hafði hann ekkert að segja við hann. Í staðinn hringdi Bush! Sagt er að íslenski forsætisráðherrann hafi ekki beðið um símtal við Bush. En skrifstofa forseta Bandaríkjanna hefur verið látin vita af því að forsætisráðherra Íslands væri í Bandaríkjunum. Ísland hefur sendiráð bæði í Washington og í New York. Bæði þessi sendiráð hafa komið því rækilega til skila við Bandaríkin að íslenski forsætisráðherrann væri í Bandaríkjunum. Slík skilaboð má telja óbein tilmæli um að haft væri samband við forsætisráðherra Íslands..
Utanríkisráðherra vissi ekkert
Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar spurði utanríkisráðherra á alþingi 15.apríl um viðræður Davíðs við Bush. Utanríkisráðherra vissi ekkert um þær. Er það svipað og þegar forsætisráðherra skýrði sendiherra Bandaríkjanna frá því,að Ísland mundi styðja innrás Bandaríkjanna í Írak. Utanríkisráðherra vissi ekkert um það!
Björgvin Guðmundsson
" Samkvæmt þingsköpum alþingis getur alþingi skipað rannsóknarnefndir. Ég legg til,að slík nefnd verði skipuð til þess að rannsaka ákvarðanatöku um stuðning Íslands við innrásina í Írak."
|