Um þessar mundir er eitt ár frá innrásinni í Írak. Bandaríkin og Bretland gerðu innrás í ríkið án samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Allmörg ríki lýstu yfir stuðningi við innrásina,þar á meðal Ísland,sem fram að þeim tíma hafði alltaf verið friðelskandi þjóð. Bandaríkjamenn og Bretar heldu því fram,að Saddam Hussein einvaldur Íraks hefði yfir gereyðingarvopnum að ráða og því þyrfti að afvopna hann. Vopnaeftirlitsmenn Sþ. höfðu þó ekki fundið neinar vísbendingar um gereyðingarvopn í Írak
Stríð á fölskum forsendum.
Stríðið í Írak stóð tiltölulega stutt. Írakar veittu litla mótstöðu. Her þeirra virtist máttlaus og illa búinn vopnum. Engin gereyðingarvopn fundust í landinu.Ljóst var,að frá Persaflóastríðinu hafði Írak ekki getað eflt her sinn á ný. Stríðið var því háð á fölskum forsendum. Það þurfti ekki að afvopna Saddam Hussein. Hann átti engin gereyðingarvopn. Það stóð engin ógn af honum. Ljóst var að Bandaríkin höfðu verið að blekkja heimsbyggðina. Aðrar ástæður voru fyrir árásinni en þær sem gefnar voru upp. Sennilega var aðalástæðan olíuhagsmunir en auk þess vildu Bandaríkin sýna herstyrk sinn.
Ríkisstjórn Íslands braut af sér
Ófyrirgefanlegt er,að ríkisstjórn Íslands skyldi lýsa yfir stuðningi við innrásina í Írak. Hér var um brot á alþjóðalögum að ræða. Ríkisstjórn Íslands stóð ekki rétt að ákvarðanatöku um að lýsa yfir stuðningi við stríðið. Hér var um mikilvægt utanríkismál að ræða og því átti að leggja það fyrir utanríkismálanefnd og alþingi. Það var ekki gert. Og því braut ríkisstjórnin af sér. Óskilanlegt er,að þjóðin skyldi ekki refsa stjórnarflokkunum meira en gert var í síðustu kosningum.
Spánverjum refsað
Nú er talið að Al Kaida,hryðjuverkasamtökin hafi verið að verki í Madrid á dögunum,þegar 200 manns létust í hryðjuverkum. Al Kaida voru einmitt að verki þegar árásin var gerð á turnana tvo í New York. Spánverjar voru fremstir í flokki að lýsa yfir stuðningi við innrásina í Írak enda þótt 80-90 % þjóðarinar væri andvíg stríðinu. Í þingkosningum 14.mars sl. tapaði stjórnarflokkurinn,Þjóðarflokkurinn,miklu fylgi og er talið að það hafi verið vegna stuðnings við innrásina í Írak. Kjósendur voru að refsa stjórnarflokknum á Spáni. Mörg önnur riki, sem studdu stríðið, eru nú hrædd um að hryðjuverk verði framin hjá þeim. Danir eru t.d. hræddir um það.Spurningin er þessi: Þurfa Íslendingar að óttast hryðjuverk?
Björgvin Guðmundsson |