Í umræðum um samkomulag öryrkja við ríkisstjórnina,hafa stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar gefið í skyn,að það hafi verið eitthvað óljóst hvað samið hafi verið um,þar eð samkomulagið hafi verið munnlegt.Á þessum forsendum hafa stjórnarliðar reynt að halda því fram,að þeir væru að efna samkomulagið með því að láta 1 milljarð í það,þegar kostnaðurinn er 1 ½ milljarður. Meira að segja Jón Kristjánsson hefur fallið í þennan pytt í röksemdafærslu.
Kostnaður lá fyrir í tæka tíð
En það lá fyrir löngu fyrir kosningar hver kostnaðurinn yrði við það að efna samkomulagið að fullu.Heilbrigðis-og tryggingaráðuneytið ritaði Tryggingastofnun ríkisins bréf 9.apríl sl. og óskaði eftir að reiknað yrði út hvað framkvæmd samkomulagsins kostaði. Tekið var fram,að grunnlífeyrir þeirra,sem yrðu öryrkjar 18 ára ætti að tvöfaldast. En síðan ætti hækkun grunnlífeyris að skerðast um 421 kr. fyrir hvert ár,sem aldur öryrkja hækkaði um þar til náð væri 67 ára aldri en þá yrði engin hækkun. ( Ávallt miðað við það hvenær menn yrðu öryrkjar).Þessi atriði samkomulagsins eru alveg skýr og hafa alltaf legið fyrir. Það tók Tryggingastofnun 2 daga að reikna út kostnaðinn. Hann lá fyrir 11.apríl og var 1.528,8 millj. kr. Kostnaður upp á hálfan annan milljarð lá því fyrir mánuði fyrir kosningar.
Alger kattarþvottur
Jón Kristjánsson,heilbrigðisráðherra,hefur reynt að halda því fram,að um fleiri en eina útfærslu hafi verið að ræða við framkvæmd samkomulagsins. En bréfið til Tryggingastofnunar talar skýru máli um útfærsluna og Garðar Sverrisson formaður Öryrkjabandalagsins er ekki í nokkrum vafa um hvað samið var um.Ráðherra virtist einnig í fyrstu sammála Garðari eða allt þar til Sjálfstæðisflokkurinn barði hann niður.Allt tal Jóns um aðrar útfærslur en þær sem samið var um, og koma fram í bréfinu til Tryggingastofnunar,eru alger kattarþvottur.
Björgvin Guðmundsson
|