Stjórnarflokkarnir hafa í valdatíð sinni gerst sekir um margvíslega valdníðslu og misbeitingu á valdi.Þeir hafa skipað vini og vandamenn í há embætti og í því sambandi brotið jafnréttislög og stjórnsýslulög.Og þeir hafa tekið ákvarðanir í trássi við lög og reglur.Þar er grófasta dæmið þegar forsætisráðherra og utanríkisráðherra tóku ákvörðun um að láta Ísland lýsa yfir stuðningi við árás Bandaríkja og Bretlands á Írak án þess að leggja málið fyrir utanríkismálanefnd eða ríkisstjórn eins og lögbundið er.Hvað eftir annað hafa ráðherrar valdið ríkinu miklu fjárhagstjóni vegna embættisafglapa,sem kostað hafa ríkið miklar fjárhæðir.Er þess skemmst að minnast í því sambandi, að ríkið verður að greiða margar milljónir vegna þess,að dómsmálaráðherra braut jafnréttislög,er hann gekk framhjá Hjördísi Hákonardóttur dómstjóra við skipan dómara í Hæstarétt. Og hið sama gerðist,er félagsmálaráðherra klúðraði máli gegn Valgerði H.Bjarnadóttur hjá jafnréttisstofu á Akureyri.En ráðherra notaði vald sitt og þvingaði hana til þess að segja upp starfi sínu.Ráðherra var dæmdur til þess að greiða henni 6 milljónir kr. í skaðabætur.Nýjasta dæmið um grófa valdníðslu ráðherra ríkisstjórnarinnar er ólögmætur brottrekstur iðnaðar-og viðskiptaráðherra á Birni Friðfinnssyni úr embætti ráðuneytisstjóra.En lögmenn telja,að sú brottvikning geti bakað ríkisstjóði mjög mikið fjárhagstjón vegna skaðabótaskyldu. Björn Friðfinnsson var skipaður ráðuneytisstjóri 1989 ævilangt.Hann fékk leyfi frá störfum til þess að fara til starfa hjá ESA í Brussel en átti samkvæmt samkomulagi að taka við starfi sínu um . áramótin en það samkomulag var svikið. Áður hafði það verið dregið nokkrum sinnum,að hann fengi að taka við starfi sínu á ný. Hafði Björn sýnt mikinn samkomulagsvilja en samt var samkomulag við hann svikið. Björn er mjög hæfur embættismaður og hann hafði ekkert brotið af sér í starfi. Ekki var unnt að finna neitt að störfum hans.Hið eina sem ráðherrar Framsóknarflokksins gátu fundið að Birni var,að hann væri jafnaðarmaður. Þó eru mörg dæmi um það,að menn hafa gegnt háum embættum í Stjórnarráðinu þó þeir hafi ekki haft sömu stjórnmálaskoðanir og ráðherrarnir.Þetta er ekki í fyrsta sinn sem iðnaðar-og viðskiptaráðherra misbeitir valdi sínu við ákvarðanir um embætti og lætur stjórnmálaskoðanir ráða skipun og brottvikningu..Skammt er síðan sami ráðherra flæmdi Georg Ólafsson frábæran forstjóra Samkeppnisstofnunar úr starfi til þess að koma rétt ættuðum Framsóknarmanni að.Það virðist ekki skipta ráðherra ríkisstjórnarinnar neinu máli,þó þeir baki ríkissjóði mikið fjárhagstjón með embættisfærslum sínumi og embættisafglöpum.Þeir afgreiða starfslokasamninga á færibandi og senda ríkissjóði reikninginn.
.
40 milljarðar hafðir af öldruðum!
Ráðherrum ríkisstjórnarinnar virðist fyrirmunað að vinna með fólkinu í landinu.Þeir eru alltaf að níðast á borgurunum og eru í stríði við þá.Þannig hafa þeir stöðugt níðst á kjörum öryrkja og aldraðra. Öryrkjar hafa tvívegis orðið að sækja rétt sinn til Hæstaréttar vegna þess,að ríkisstjórnin braut lög og greiddi ekki öryrkjum lögbundnar greiðslur. Skerðing á bótum öryrkja vegna tekna maka var í Hæstarétti dæmd ólögmæt vegna jafnréttisákvæða stjórnarskrárinnar.Samkomulag við öryrkja,sem gert var fyrir síðustu þingkosningar var svikið og 500 milljónir hafðar af öryrkjum. Það mál er nú komið fyrir dómstólana. Loforð ríkisstjórnarinnar um,að kjör aldraðra yrðu ekki skert þó rofin væru sjálfvirk tengsl bóta við lágmarkslaun var svikið. Landssamband eldri borgara telur,að lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum þurfi að vera 17000 kr. hærri á mánuði en nú er til þess ná því,sem vera ætti, ef staðið hefði verið við þetta loforð. Þetta þýðir,að um 40 milljarðar hafa verið hafðir af öldruðum síðast liðin rúm 11 ár. Það eru miklir peningar. Ríkisstjórnin skuldar því öldruðum miklar bætur.Hún hefur einnig svikið loforð um aðgerðir varðandi byggingu hjúkrunarheimila. Þar er ríkjandi vandræðaástand,biðlistar langir, margir látnir vera saman á herbergi og jafnvel heilabilaðir vera með öðrum í herbergi sem er lögbrot.
Fátækt hefur aukist mikið
Fátækt og misskipting hefur aukist mikið í tíð núverandi ríkisstjórnar.
Í dag búa 20-30 þús manns við fátækt á Íslandi,þ.e. hafa tekjur undir fátæktarmörkum.Ástandið er verst hjá einstæðum mæðrum en margir einhleypir karlmenn búa einnig við mikla fátækt og erfiðar aðstæður.Athugun á framtölum leiðir í ljós,að fátækt hefur aukist mikið á valdatíma stjórnarflokkanna.
Fátækt er meiri á Íslandi en í nokkru hinna Norðurlandanna. T.d. er tvöfalt meiri fátækt á Íslandi en í Noregi.Allt að 30% ellilífeyrisþega og 31% einstæðra foreldra lifa undir fátæktarmörkum á Íslandi. Í hinum norrænu löndunum búa 6,6-13,5% einstæðra foreldra við fátækt. Ellilífeyrir er lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum og tekjutengingar bóta mikið meiri hér en þar.Hér er ellilífeyrisþegum refsað fyrir að vinna en ekki á hinum Norðurlöndunum.
Velferðarkerfið hér er mikið verra en í hinum norrænu löndunum.Kerfið hér hefur farið versnandi og fjarlægst Norðurlöndin.Það siglir stöðugt í áttina til bandaríska kerfisins.Hin Norðurlöndin eru með besta velferðarkefi í heimi en Bandaríkin eitt það versta á Vesturlöndum.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 5.mars 2006
|