Tilllögur um nýskipan almannatrygginga hafa verið lagðar fram.Tillögurnar valda mér miklum vonbrigðum.Verkefnisstjórn undir forustu Stefáns Ólafssonar, prófessors,hefur haft langan tíma til þess að vinna að tillögunum en árangur er ekki eftir því. Verkefnisstjórnin átti að skila áliti 1.nóvember sl. en hún skilaði loks tillögum 8 eða 9 mánuðum á eftir áætlun. Ég verð að segja það eins og er, að tillögurnar eru rýrar í roðinu.
Sameining bótaflokka
Aðaltillaga verkefnisstjórnar er að sameina nokkra bótaflokka lífeyristrygginga í einn, þ.e. að slá saman grunnlífeyri,tekjutryggingu og heimilisuppbót. Það kann að vera, að slík breyting sé til bóta en lífeyrisþegar leggja meira upp úr því hvað þeir fá mikinn lífeyri en hvað tryggingabæturnar heita. Verkefnisstjórnin leggur fram tvær tillögur að þessari breytingu.Annars vegar er lagt til, að umræddir bótaflokkar verði sameinaðir og lífeyrisþegar fái það sama greitt eins og áður.Hins vegar er lagt til, að um leið og bótaflokkarir eru sameinaðir verði gerð tilfærsla þannig, að þeir,sem hafa þokkalegan lífeyri frá lífeyrissjóði verði skertir, þ.e fái minna frá almannatryggingum en áður en þeir sem hafa minna frá lífeyrissjóði fái meira frá almannatryggingum en áður. Þetta gengur þvert á eitt aðalmarkmið endurskoðunar almannatrygginganna þ.e. að draga úr tekjutengingum, og minnka skerðingu lífeyris almannatrygginga vegna tekna. Engu er líkara en verkefnisstjórnin hafi gripið til þess ráðs vegna bankahrunsins að láta lífeyrisþega sjálfa greiða fyrir þær breytingar og lagfæringar, sem ætlunin væri að gera á kerfinu.Það gengur ekki. Enda þótt markmið endurskoðunar almannatrygginga hafi m.a. verið að einfalda kerfið var höfuðmarkmiðið að efla tryggingarnar og bæta kjör lífeyrisþega. Ef verkefnisstjórn treystir sér ekki til þess að leggja til neinar kjarabætur til handa lífeyrisþegum er eðlilegt að fresta endurskoðun almannatrygginga.Lífeyrisþegar eru lítið betur settir þó skipt sé um nafn á bótaflokkum og þeir sameinaðir.
Léleg tillaga um frítekjumark
Önnur tillaga verkefnisstjórnar er að taka skuli upp 30 þús. kr. frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna.Þetta er mjög léleg tillaga og bætir ekkert kjör lífeyrisþega. Tryggingabætur eru skertar um sömu upphæð og nemur tekjum úr lífeyrissjóði.Auk þess er þetta afturför.Ríkisstjórnin, sem setti endurskoðun almannatrygginga í gang, var búin að ákveða að þeir sem væru orðnir 70 ára og eldri mættu vinna sér inn ótakmarkaðar tekjur án þess að það skerti lífeyri þeirra frá almannatryggingum. Síðan var ákveðið að setja 100 þús kr. frítekjumark vegna atvinnutekna 67 --70 ára eldri borgara.Þá var einnig ákveðið, að engin skerðing yrði á lífeyri eldri borgara frá almannatryggingum vegna séreignalífeyrissparnaðar.Hér er rétt að staldra við:.Ekki er unnt að gera upp á milli mismunandi lífeyrissparnaðar á þennan hátt.Og ef stjórnvöld vilja mismuna milli þessara sparnaðarforma er eðilegt, að það sé gert í hag þeim lífeyrissjóðum, sem eru skyldulífeyrissjóðir.Það væri því rökrétt, að afnumin væri með öllu skerðing á lífeyri aldraðra frá almannatryggingum vegna tekna úr hefðbundnum lífeyrissjóðum.Sem skref í þá átt mætti byrja með 100 þús. kr. frítekjumarki vegna lífeyrissjóðstekna. En aðeins 30 þús. kr. frítekjumark er alveg út úr korti og ekki unnt að bjóða lífeyrisþegum upp á svo lélega tillögu.Sú tillaga er aðeins til þess að sýnast.Hún bætir ekki kjör lífeyrisþega.
Frítekjumark vegna atvinnutekna skorið niður
Ríkisstjórnin steig skref til baka og afnam þá ákvörðun, að ellilífeyrisþegar 70 ára og eldri mættu vinna ótakmarkað án skerðingar lífeyris frá almannatryggingum. Byrjað var á því að ákveða, að 100 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna skyldi gilda fyrir alla. En það stóð ekki lengi. Hinn 1.júlí sl. ákvað ríkisstjórn " félagshyggjuflokkanna" að skera frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra niður í 40 þús.kr. á mánuði.Frítekjumarkið var hins vegar látið haldast hjá öryrkjum.Ekki kemur fram í tillögum verkefnisstjórnar hvað hún telji, að frítekjumark vegna atvinnutekna eigi að vera hátt aðeins sagt, að það eigi að hækka verulega.Verkefnisstjórnin leggur fram það markmið sitt að draga eigi úr tekjutengingum og auka frítekjumark sem mest en á sama tíma er ríkisstjórnin að skera niður frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra.Eðlilegt hefði verið að verkefnisstjórnin hefði lagt fram sínar tillögur án afskipta ríkisstjórnarinna og síðan hefði ríkisstjórnin skorið þær niður eða frestað framkvæmd þeirra. En í staðinn hefur verkefnisstjórnin valið að vinna tillögur sínar í samráði við ríkisstjórn og þess vegna verða tillögurnar í skötulíki.
Frítekjumark vegna fjámagnstekna óeðlilega lágt
Frítekjumark vegna fjármagnstekna er núi 8.160 kr.á mánuði. Það er hvorki fugl né fiskur.Verkefnisstjórn segir í áliti sínu, að þetta frítekjumark þyrfti að vera hærra, í átt að 30 þús. á mánuði. Í áliti verkefnisstjórnar segir, að kostnaður við það gæti orðið í kringum 1 milljarð kr, En þar á móti kemur, að talið er að ríkið spari nálega 3 milljarða vega aukinnar skerðingar tryggingabóta af völdum fjármagnstekna.Auðvitað á frítekjumark vegna fjármagnstekna að vera hið sama og vegna atvinnutekna, þ.e. a.m.k. 100 þús.á mánuði. Lágt frítekjumark vegna fjármagnstekna dregur úr sparnaði og leiðir til þess að fólk tekur sparifé sitt út úr bönkunum, þar eð það vill ekki sæta skerðingu á lífeyri sínum frá almannatryggingum.Tillögur verkefnisstjórnar eru sama marki brenndar og tillögur fyrri ríkisstjórnar.Þær eru miðaðar við það,sem er hagkvæmast fyrir ríkissjóð en ekki það sem er hagkvæmast fyrir lífeyrisþega.
Álit og tillögur verkefnisstjórnar bera þess göggt merki, að ríkisstjórnin hefur horft yfir öxlina á verkefnisstjórninni.Það hefði verið betra að verkefnisstjórnin hefði haft meira sjálfstæði. Hún hefði átt að gera sjálfstæðar tillögur án afskipta ríkisstjórnar og ráðherra. Þannig starfa nefndir erlendis og þannig hefði verkefnisstjórnin átt að starfa hér.
Björgvin Guðmundsson
Birti í Morgunblaðinu 28.sept. 2009
|