Fram kom í kastljósi sjónvarpsins 25.oktober sl.,að Ísland er mörgum áratugum á eftir hinum Norðurlöndunum í vistunarmálum aldraðra.Formaður Félags eldri borgara í Reykjavík,Margrét Margeirsdóttir, benti á þetta í kastljósi.Í þættinum var einkum rætt um ástandið varðandi hjúkrunarrými fyrir aldraða en í þeim málum ríkir algert öngþveiti.Rætt var um hjúkrunarheimilið Sólvang í Hafnarfirði en þar eru tvöfalt fleiri vistmenn en ættu að vera. Margir eru saman í hverju herbergi,allt upp í
4 vistmenn. Heilbrigðir aldraðir eru hafðir í herbergi með heilabiluðum en það er lögbrot..Ekkert einkalíf er hjá öldruðum við þessar aðstæður. Þegar aðstandendur aldraðra koma í heimsókn á Sólvang er hvergi afdrep til þess að setjast niður og ræða saman einkamál. Forstöðukona Sólvangs sagði,að vegna þrengsla og vandræðaástands yrði oft að gefa öldruðum svefnlyf,sem komast mætti hjá, ef aðstæður væru í lagi.
Aðeins 1 á að vera í hverju herbergi
Á hinum Norðurlöndunum er aðeins einn vistmaður í hverju herbergi og það er krafa samtaka eldri borgara hér,að þannig verði það einnig hér á landi. En það vantar mikið á,að það markmið náist hér.1000 aldraðir deila herbergi með ókunnugum á vistheimilum fyrir aldraða hér á landi. Margrét Margeirsdóttir sagði í kastljósi: Þetta ástand er ekki bjóðandi eldri borgurum.Þetta eru skilaboð frá stjórnvöldum um,að þetta sé nógu gott fyrir aldraða.
Það hefur verið lengi á dagskrá að byggja við Sólvang til þess að bæta aðstöðu vistmanna þar.Sólvangur var byggður um miðja síðustu öld sem sjúkrahús og því ekki hannaður sem hjúkrunarheimili fyrir aldraða.Sl. 20 ár hefur verið rætt um að byggja við heimilið og hefur teikning verið til allan þann tíma. En framkvæmdum er alltaf frestað. Nú er rætt um að byggja við árið 2008. Forráðamenn heimilisins og fulltrúar eldri borgara telja það allt of seint.Málið er í höndum ríkisins. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sagði í viðtali við sjónvarpið 27.oktober,að ástæðan fyrir því að framkvæmdir hefðu enn ekki hafist við viðbyggingu við Sólvang væri sú,að ástandið í þessum málum væri enn verra annars staðar en í Hafnarfirði eins og t.d. í Reykjavík en þar eru meira en 300 aldraðir á biðlista eftir rými á hjúkrunarheimili.70 heilabilaðir eldri borgarar bíða eftir rými á viðeigandi sjúkrastofnun. Framkvæmdir í Reykjavík eru látnar hafa forgang. Ráðherra viðurkenndi ,að það væri lögbrot að hafa heilabilaða í herbergi með heilbrigðum á Sólvangi.
Fjárráðin tekin af öldruðum!
Ég hefi í fyrri greinum mínum um málefni aldraðra einkum rætt um kjör aldraðra og greiðslur til þeirra frá almannatryggingum.Á því sviði er ástandið óviðunandi. En það sem segir hér að framan leiðir í ljós,að algert vandræðaástand ríkir einnig í hjúkrunarmálum aldraðra. Lög varðandi vistun aldraðra eru brotin eins og heilbrigðisráðherra hefur nú viðurkennt opinberlega.Þrengslin á Sólvangi eru stjórnvöldum til skammar. En þar við bætist,að stór hópur aldraðra,yfir 300 í Reykjavík,fær hvergi rými á hjúkrunarheimili enda þótt fólkið sé búið að greiða skatta og skyldur til hins opðinbera alla sína tíð.Það er einnig til skammar.Það hefði átt að taka fjármuni af símapeningunum til þess að leysa þetta vandamál,reisa hjúkrunarheimili til þess að útrýma biðlista aldraðra eftir hjúkrunarrými.
Þá þarf að afnema það mannréttindabrot að hjúkrunarheimili eða Tryggingastofnun felli niður allar tryggingabætur til aldraðra,þegar þeir vistast á dvalar-eða hjúkrunarheimili.En síðan verði aldraðir að fara bónarveg að Tryggingastofnun og sækja um vasapeninga til stofnunarinnar.Segja má,að þeir missi fjárræði sitt með þessu fyrirkomulagi. Krafan er sú,að aldaðir fái greiddar þær bætur,sem þeir eiga rétt á en síðan greiði þeir sjálfir fyrir dvöl sína á dvalar-eða hjúkrunarheimili og haldi eftir ákveðnum hluta í vasapeninga. Þannig er fyrirkomulagið í nálægum löndum.
Margir tugir milljarða hafðir af öldruðum!
Ég hefi bent á,að ríkið hefur haft marga tugi milljarða af öldruðum sl. 11 ár miðað við loforð,sem öldruðum voru gefin af ríkisstjórn árið1995.Þar við bætist ,að algert öngþveiti ríkir í vistunarmálum aldraðra. Lög um vistun aldraðra eru brotin,sbr. Sólvang í Hafnarfirði. Ríkinu ber skylda til þess að sjá öldruðum,sem ekki geta búið í heimahúsum,fyrir hjúkrunarrými. Þessa skyldu uppfyllir ríkið ekki. Það er ekki nóg fyrir ríkisstjórnina,að guma af “góðum” fjárhag ríkisins og “góðu” efnahagsástandi,þegar ríkisstjórnin vanrækir algerlega að leysa mál þeirra eldri borgara sem byggt hafa upp Ísland í dag.Enn er unnt að bæta úr þeim málum,ef vilji er fyrir hendi.
Það eru nógir peningar til. Þetta er aðeins spurning um forgang. Það mætti láta ýmis gæluverkefni bíða.Einn eldri borgari hringdi til mín og sagði,að það mætti draga úr fjárveitingum til fornleifarannsókna en auka í staðinn fjárveitingar til eldri borgara.Mál eldri borgara þyldu ekki bið en fornleifarnar mættu bíða.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 6.nóvember 2005
|