Forsætisráðherra skýrði frá því í áramótaávarpi,að hann ætlaði að skipa nefnd til þess að athuga með lækkun matvælaverðs hér á landi en upplýst hefur verið að það er rúmlega 40% hærra en í löndum Evrópusambandsins. Ýmsir hafa fagnað þessari nefndarskipun og talið,að nú væri stórum áfanga náð. En er það rétt? Nei því miður. Þessi nefndarskipun er einungis til þess fallin að slá ryki í augu almennings og til þess að tefja málið.
Tillaga Rannveigar Guðmundsdóttur
Fyrir nokkrum árum flutti Rannveig Guðmundsdóttir alþingismaður þingsályktunartillögu á alþingi um athugun á hinu háa matvælaverði hér á landi og hvaða ráðstafanir mætti gera til þess að lækka það. Hefur Rannveig hvað eftir annað tekið þetta mál upp á alþingi og gert samanburð á matvælaverði hér og í löndum ESB en hún hefur ítrekað bent á ,að matvælaverð væri hér mikið hærra en hjá ESB.
Athugun á vegum alþingis
Tillaga Rannveigar um athugun á matvælaverði hér og erlendis var samþykkt. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var falin athugun málsins og skilaði stofnunin ítarlegri skýrslu um málið. Þar koma allar staðreyndir málsins fram,ástæður hærra matvælaverðs hér en í löndum ESB,hvaða ráðstafanir megi gera til þess að lækka matarverðið o.s.frv.Sl. haust tók Rannveig mál þetta enn upp á alþingi en þá hafði forsætisráðherra engan áhuga á málinu og vildi ekkert gera! Hvað er hér á seyði? Hvers vegna er verið að skipa nýja nefnd til þess að rannsaka það,sem er áður búið að rannsaka hjá Hagfræðistofnun? Er verið að tefja málið? Eða er verið að slá ryki í augu almennings?Þetta eru forkastanleg vinnubrögð. Það er engu líkara en að tilgangurinn með þessu sjónaspili sé sá að tefja málið,þar eð ekkert gerist í lækkun matarverðs á meðan nefndin er að störfum.
Alþingi hundsað
Forsætisráðherra er hér að hundsa alþingi. Í stað þess að framkvæma skýrslu Hagfræðistofnunar og hefjast handa við að lækka matarverðið er skipuð ný nefnd til þess að fjalla um allt það sama og áður hefur verið fjallað um. Þetta er alger skrípaleikur og almenningur hlýtur að sjá í gegnum þetta sjónarspil.Það vantar algerlega viljann til aðgerða.Þess vegna er reynt að svæfa málið í nefnd!
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 9.feb. 2006 |