Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur haft gífurleg áhrif á íslenskt þjóðfélag. Áhrifin á viðskipti Íslands við EES eru að sjálfsögðu mjög mikil vegna afnáms tolla og lækkunar á þeim. En einnig hefur EES haft mikil áhrif hér vegna frjálsræðis á öðrum sviðum, svo sem á fjármagnsmarkaðnum,útboðsmarkaðnum,vegna samkeppnisreglna o.s.frv. Tilskipanir Evrópusambandsins á ýmsum sviðum hafa haft víðtæk áhrif hér á landi.
Það eru ríki,sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins,sem annast framkvæmd EES-samningsins. Hér verður fjallað um áhrifin á sveitarfélögin en þau eru mjög víðtæk og hafa margar af tilskipunum ESB mikinn kostnað í för með sér fyrir sveitarfélögin. Ef litið er á áhrif EES-samningsins og nýrra tilskipana á sveitarfélögin kemur í ljós, að áhrifin eru mest á sviði umhverfismála. Ingimar Sigurðsson,skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu telur,að rúmlega þriðjungur af gerðum EES tengist starfsemi umhverfisráðuneytisins. Í EES-samningnum eru almenn ákvæði um umhverfismál og segir þar að varðveita beri og bæta umhverfið og stuðla að því að vernda heilsu manna og tryggja að náttúruauðlindir séu nýttar af varúð og skynsemi.
MIKILVÆGAR TILSKIPANIR Á SVIÐI UMHVERFISMÁLA
Strax 1.janúar 1994,þegar EES samningurinn tók gildi hér á landi, urðu Íslendingar að samþykkja fjölmargar tilskipanir á sviði umhverfismála. Mikilvægastar þeirra varða frárennslismál.Eiga þær að koma að fullu til framkvæmda hér á landi í árslok 2005. Hafa þær mikinn kostnað í för með sér fyrir sveitarfélögin. Aðrar stórar tilskipanir á sviði umhverfismála,sem varða sveitarfélögin eru þessar: Rammtilskipun um vatnsstjórn,sem lögfesta verður fyrir lok yfirstandandi árs. Rammalöggjöf um matvæli.Tilskipanir á sviði sorpbrennslu, um förgun og meðferð urgangs o.fl.Þá má nefna tilskipanir á sviði hljóðmengunar,vatnsmengunar og loftgæða. Margar mikilvægar tilskipanir á þessu sviði eru í uppsiglingu svo sem um skaðsemisábyrgð við umhverfisspjöll, en hún getur haft mikil áhrif á sveitarfélögin.
EES HEFUR HRAÐAÐ ÞRÓUN FÉLAGSLEGRA UMBÓTA
Margar tilskipanir ESB varða félags-og vinnumál. Hafa þær mikil áhrif á sveitarfélögin sem vinnuveitendur.Þessar tilskipanir fela í sér miklar umbætur og telur ASÍ, að aðild okkar að EES hafi hraðað þróun á sviði félagslegra umbóta hér á landi. Í almennum ákvæðum EES-samningsins segir,að leggja skuli áherslu á að hvetja til umbóta varðandi vinnuumhverfi með tilliti til heilsu og öryggis launþega og að hver samningsaðili skuli tryggja og viðhalda beitingu þeirrar meginreglu að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafna vinnu.Einhver mikilvægasta tilskipunin á sviði félags-og vinnumála er vinnutímatilskipunin.Hún kveður á um lágmarkshvíldartíma launþega.En einnig má nefna tilskipun um aðbúnað,hollustu og öryggi á vinnustöðum.
FRJÁLSRÆÐI Í ORKUMÁLUM
Tilskipanir um frjálsræði á sviði orkumála varða mjög sveitarfélögin.Orka er flokkuð með vörum hjá ESB og taka reglur EES um frjálst vöruflæði því til orku.Tilskipun ESB, nr.96/92/EC, fjallar um frjálsræði á raforku- og gasmarkaði. .Samkvæmt henni skal afnema einkarétt orkufyrirtækja til þess að framleiða og selja raforku. Einnig er þar kveðið á um aðskilnað milli framleiðslu,flutnings,dreifingar og sölu á raforku,a.m.k bókhaldslegan aðskilnað. Þessi tilskipun átti þegar að hafa tekið gildi hér á landi og mun hún taka gildi í ár. Önnur tilskipun( tillaga) á sviði orkumála er til meðferðar hjá ESB og á samkvæmt henni að hraða frjálsræði á sviði orkumála. Á að tryggja frelsi til orkukaupa að því er varðar atvinnurekstur fljótlega og að því er varðar heimilin fyrir 1. janúar 2005. Tilskipanir ESB um frjálsræði í orkumálum hafa mikil áhrif á sveitarfélögin.
OPINBERIR STYRKIR-OPINBER INNKAUP
Aðrar tilskipanir ESB,sem hafa mikil áhrif á sveitarfélög eru tilskipanir varðandi opinbera styrki og opinber innkaup. Meginreglan varðandi opinbera styrki er sú,að opinberir styrkir eru bannaðir, ef þeir hafa áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna á þann hátt að þeir ívilni ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara. Samkvæmt tilskipunum um opinber innkaup er skylt að bjóða út á öllu EES-svæðinu kaup sveitarfélaga á vörum og þjónustu,ef verðmætið er yfir ákveðnu marki. Hið sama gildir um verklegar framkvæmdir yfir ákveðinni viðmiðun. Ýmsar aðrar tilskipanir hafa mikil áhrif á sveitarfélögin en hér verður látið staðar numið að sinni.
Sveitarstjórnarmenn á Íslandi hafa kvartað undan því að hafa ekki fengið að vita í tæka tíð um ýmsar tilskipanir ESB, sem haft gætu mikil áhrif á sveitarfélögin og valdið þeim miklum kostnaði. Af þeim sökum tók utanríkisráðuneytið mál þessi upp og í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hefur nú verið komið á kerfi og upplýsingaflæði,sem tryggir að upplýsingar berast í tæka tíð um tillögur að nýjum tilskipunum,sem varða sveitarfélögin.
Björgvin Guðmundsson
viðskiptafræðingur
Birt í DV 2003