Úthlutun á ókeypis aflaheimildum til örfárra útvalinna gæðinga er eitthvert mesta ranglæti sem átt hefur sér stað. Þeir sem fengu fríar aflaheimildir hafa getað braskað með þær og þeir hafa margir hverjir óspart gert það. Sumir bleyta aldrei færi,leigja bara aflaheimildirnar út og hafa gott upp úr því.Aðrir hafa selt frá sér alla kvótana og hætt veiðum.Dæmi eru um að menn hafi fengið marga milljarða fyrir kvóta,sem þeir hafa selt.Þeir hafa sem sagt selt kvóta,sem þeir fengu fría,selt heimildir,sem þeir í raun áttu ekki, þar eð þjóðin á fiskinn í sjónum.Fiskurinn er sameiginleg auðlind þjóðarinnar.
Nauðsynlegt er að breyta þessu fyrirkomulagi.Það verður að afhenda þjóðinni veiðiheimildirnar á ný. Og síðan verða allir sem fá veiðiheimildir að greiða fyrir afnot þeirra.
Óbreytt stefna Samfylkingar
Samfylkingin samþykkti svohljóðandi á landsfundi 2003:
"Samfylkingin stefnir að því að endurheimta sameiginlega auðlind þjóðarinnar, fiskinn í sjónum, með markvissri innköllun og endurúthlutun veiðiheimilda þar sem opnaður er aðgangur að veiðiréttinum með jafnræði og réttlæti að leiðarljósi. Þessi leið færir komandi kynslóðum aftur réttinn til arðs og aðgangs að sameiginlegri auðlind, tryggir nýliðun í útgerð og færir íbúum sjávarbyggðanna á ný réttinn til að nýta þá auðlind sem skóp þær."
Þessari stefnu hefur ekki verið breytt. Hún er enn í fullu gildi.
Björgvin Guðmundsson
|