90 ár eru liðin síðan Alþýðuflokkurinn var stofnaður.Flokkurinn starfaði þar til Samfylkingin var stofnuð en þá var Alþýðuflokkurinn,Alþýðubandalag og Kvennalisti sameinuð.Það má því segja,að Samfylkingin sé arftaki Alþýðuflokksins.
Merk saga
Saga Alþýðuflokksins var mjög merk.Flokkurinn kom í framkvæmd ýmsum mjög mikilvægum umbótamálum í þágu alþýðu og launamanna,svo sem togaravökulögum,.lögum um verkamannabústaði,lögum um almannatryggingar og lögum um atvinnuleysistryggingar svo nokkur helstu umbótamálin séu nefnd. Alþýðuflokkurinn átti einnig frumkvæði að því að koma fram aðild Íslands að EFTA,Fríverslunarsamtökum Evrópu og aðild að EES,Evrópska efnahagssvæðinu.Gylfi Þ.Gíslason fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins átti stærsta þáttinn í aðild Íslands að EFTA en Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins kom Íslandi í EES.
Klofningur jafnaðarmanna
Alþýðuflokkurinn náði aldrei mjög miklu kjörfylgi vegna klofnings í hreyfingu jafnaðarmanna og í verkalýðshreyfingunni.Við hlið Alþýðuflokksins óx upp sterkur sósialistaflokkur.En áhrif Alþýðuflokksins voru gífurlega mikil og það er viðurkennt,að hann átti stærsta þáttinn í því að koma fram ýmsum mikilvægustu umbótamálum launafólks í landinu.
Sameining í Samfylkingu
Mjög margir félagar í Alþýðuflokknum ólu alltaf með sér þann draum,að jafnaðarmenn gætu sameinast í einum flokki og að myndast gæti sterkur jafnaðarmannaflokkur hér á landi eins og á hinum Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Reynt var að sameina Alþýðuflokkinn og kommúnistaflokkinn 1938 en þær sameiningartilraunir strönduðu á því,að leiðtogar kommúnista vildu ekki að nýi flokkurinn starfaði á grundvelli laga og þingræðis.Ei að síður gengu þá nokkrir forustumenn Alþýðuflokksins til samstarfs við kommúnista,þar á meðal Héðinn Valdimarsson og til varð Sameiningarflokkur alþýðu Sósialistaflokkurinn.Við þetta klofnaði Alþýðuflokkurinn. Sameining var reynd á ný við stofnun Samfylkingarinnar og hún tókst mun betur en áður enda þótt brot úr Alþýðubandalaginu hlypist þá undan merkjum og stofnaði nýjan flokk,Vinstri hreyfinguna,grænt framboð.
Stefnan í anda jafnaðarstefnunnar
. Sameining jafnaðarmanna í Samfylkingunni hefur tekist mjög vel og skapað þann sterka flokk sem Samfylkingin er í dag.Flokksmenn líta í dag á sig sem Samfylkingarmenn,sem jafnaðarmenn en kenna sig ekki við hina gömlu flokka,sem stóðu að sameiningunni. .Í nýjum flokki snúast málin ekki um áhrif eða áhrifaleysi fyrrverandi flokka. Sem fyrrverandi Alþýðuflokksmaður get ég sagt,að ég er mjög ánægður með sameininguna og hinn nýja flokk.Ég tel stefnu Samfylkingarinnar vera í anda jafnaðarstefnunnar og forustumenn flokksins hafa tryggt að svo yrði.Ég er ánægður með þróun mála í Samfylkingunni.Ég hafði lengi alið þann draum,að jafnaðarmenn á Íslandi gætu sameinast í einum flokki.Ég tel,að sá draumur hafi nú rætst.
Ágreiningur A-flokkanna var úr sögunni
Ágreiningur A-flokkanna var ávallt fyrst og fremst um utanríkismál,um afstöðuna til Sovetríkjanna og til NATO.Þegar Sovetríkin liðuðust í sundur og kommúnisminn leið undir lok þar varð þessi ágreiningur úr sögunni. og ekkert stóð lengur í vegi fyrir sameiningu.Það var hins vegar skaði,að félagar Vinstri grænna skyldu ekki telja sig geta tekið þátt í sameiningu jafnaðarmanna.Í hinum stóru jafnaðarmannaflokkum í Evrópu rúmast ólíkar skoðanir og því hefðu Vinstri grænir vel rúmast innan Samfylkingarinnar með sínar sér skoðanir.
Leiðtogar Samfylkingarinnar,þau Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún,hafa staðið sig mjög vel. Össur leiddi flokkinn í upphafi sameiningarinnar þegar mjög var á brattann að sækja og á móti bles iðulega.Hann kom fylgi flokksins úr 16% í 31%. Yfirgnæfandi meirihluti flokksmanna vildi fá Ingibjörgu Sólrúnu sem framtíðarleiðtoga. Hún stóð sig mjög vel sem borgarstjóri og hefur staðið sig vel sem formaður Samfylkingarinnar.
Björgvin Guðmundsson
fyrrverandi borgarfulltrúi
Alþýðuflokksins
Félagi í Alþýðuflokknum
1949
|