Jón Ásgeir Jóhannesson,forstjóri Baugs,sat fyrir svörum hjá Agli Helgasyni í Silfri Egils sunnudaginn 11. janúar 2004. Var einkum rætt um það hvort nauðsynlegt væri að setja lög um hringamyndanir í viðskiptalífinu og um eignarhald fjölmiðla.
Jón Ásgeir taldi ekki nauðsyn lagasetningar um þessi efni.Hann sagði,að ef nýtt fjölmiðlafyrirtæki um Norðurljós,Fréttablaðið og DV kæmist á fót mundi það hafa um það bil 30-35 % á markaðnum. Það væri markaðshlutdeild,sem talin væri innan eðlilegra marka í V-Evrópu. Hann gat um hugmynd sína um fjölmiðlaráð fyrir þá fjölmiðla, sem væru að verulegu leyti í eigu Baugs. Hann sagði,að í slíku ráði mundu sitja fulltrúar frá hlutlausum aðilum,eins og Neytendasamtökunum,Háskólanum og Blaðamannafélagi Íslands og gæta þess að ritstjórnir og fréttastofur þessara fjölmiðla misnotuðu ekki aðstöðu sína í þágu eigenda sinna heldur störfuðu á eðlilegan hátt við fréttastjórn og ritstjórn. Slík ráð störfuðu í Englandi með góðum árangri.
EKKI ÞÖRF LAGA UM HRINGA
Jón Ásgeir taldi ekki þörf laga um hringamyndanir hér á landi. Á meðan fyrirtækjasamsteypur hér misnotuðu ekki aðstöðu sína gegn neytendum væri ekki þörf á slíkum lögum. Samkeppnisyfirvöld gætu fylgst með því,að vöruverð hækkaði ekki óeðlilega vegna stórra fyrirtækja.
Fram kom í þættinum,að lengi hafa verið hér á markaðnum sterk fyrirtæki og sum hver með markaðsráðandi stöðu eins og Flugleiðir og Eimskip. Þó hefur ekki verið talið nauðsynlegt að setja lög um hringamyndanir. Jón Ásgeir taldi fyrirtæki Baugs ekki orðin óeðlilega stór á markaðnum. Egill Helgason spurði hann hvort til greina kæmi að Baugur drægi saman seglin í samræmi við hugmyndir Mbl. þar um. Ekki tók Jón Ásgeir undir það. Hann sagði,að það væri t.d. ekki í þágu neytenda að verzlanir Bónus lokuðu kl. 4 á daginn til þess að draga úr umsvifum.
Egill Helgason spurði Jón Ásgeir hvort hann vissi hvers vegna Davíð Oddssyni forsætisráðherra væri í nöp við hann. Ekki kvaðst hann vita skýringu á því. Jón Ásgeir talaði vel um Sjálfstæðisflokkinn í þættinum svo ekki getur skýringin falist í því að Jón Ásgeir berjist gegn Sjálfstæðisflokknum.
Björgvin Guðmundsson |