Nýr stjórnmálaflokkur hefur verið stofnaður,Íslandshreyfingin, undir forustu Ómars Ragnarssonar og Margrétar Sverrisdóttur. Ómar er formaður og Margrét varaformaður. Stofnun þessa flokks hefur verið lengi í undirbúningi eða allt frá því, að Margrét tapaði varaformannsslagnum í Frjálslynda flokknum en í kjölfar þess sagði hún sig úr Frjálslynda flokknum. Ómar hefur verið talinn sjálfstæðismaður. Er ljóst, að þessi nýi flokkur ætlar að reyna að sækja fylgi frá Sjálfstæðisflokknum og Frjálslynda flokknum. Það er tvennt sem nýi flokkurinn leggur áherslu á: Umhverfismál og markaðsbúskap. Sumir kalla nýja flokkinn hægri grænan. Og ef til vill er það réttnefni, þar eð flokkurinn er hægri sinnaður umhverfisflokkur.Talsmenn nýja flokksins leggja áherslu á, að flokkurinn sé ekki sósialistaflokkur eins og Vinstri grænir. Þeim er mikið í mun að koma því til skila, að flokkurinn berjist fyrir hægri gildum. Það er því ljóst,að flokkurinn ætlar að sækja fylgi frá hægri.
Nýir flokkar eiga erfitt uppdráttar
Spurningin er sú hvernig þessum nýja flokki mun vegna.Reynslan sýnir, að nýir flokkar eiga erfitt uppdráttar. Ég spái því, að þessi nýi flokkur fái 2-3 þingmenn kjörna. Sennilega mun flokkurinn taka þá frá Sjálfstæðisflokknum og Frjálslynda flokknum. En hugsanlegt er einnig , að nýi flokkurimnn taki eitthvað fylgi frá Vinstri grænum.
Það virðist ekki vera mikill grundvöllur fyrir flokki eins og Íslandshreyfingunni.Aðrir flokkar eru að berjast fyrir sömu málum og nýi flokkurinn. Samfylkingin berst fyrir umhverfisvernd samkvæmt nýrri stefnu, Fagra Ísland. Og allir aðrir flokkar tala meira og meira um umhverfismál. Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn er farinn að tala um umhverfismál. Og allir stjórnmálaflokkar nema þá helst Vinstri grænir aðhyllast markaðsbúskap.
Björgvin Guðmundsso |