Utanríkisráðherra,formaður Framsóknarflokksins,skýrði frá því,5.júní,að hafin væri endurskoðun stjórnarskrárinnar,m.a. í því skyni að afnema ákvæðið um heimild fyrir forseta Íslands til þess að synja lagafrumvarpi staðfestingar og vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu.Össur Skarphéðinsson,formaður Samfylkingarinnar,kom af fjöllum er hann heyrði þessa frétt og sagði,að ekkert samráð hefði verið haft við Samfylkinguna um þessa endurskoðun.Virðast formenn stjórnarflokkanna hafa ákveðið að afnema þyrfti synjunarheimild forseta vegna óánægju yfir því,að forseti skyldi nýta umrædda heimild.Þeir formennirnir eiga erfitt með að sætta sig við það, að þeir geti ekki ráðið öllu sjálfir.Þeir eiga erfitt með að sætta sig við það, að forseti Íslands geti neitað að staðfesta lög,sem þeir hafa þvingað gegnum alþingi með offorsi.
Leiðtogar stjórnarandstöðunnar lýstu því yfir,að þeir væru andvígir því,að umrætt ákvæði stjórnarskrárinnar yrði afnumið.
Ákvæðið verði áfram í stjórnarskrá
Ég tel enga ástæðu til þess að fella brott umrætt ákvæði um synjunarvald forseta.Reynslan sýnir,að forsetar hafa farið mjög varlega með það vald,sem felst í umræddu ákvæði.En ákvæðið hefur verið til staðar og verið einskonar öryggisventill.Forseti Íslands getur gripið til hans,ef mikið liggur við.Forseti getur vísað málum til þjóðarinnar í sérstökum undantekningartilvikum.Best er að halda ákvæðinu um synjunarvald forseta óbreyttu en bæta jafnframt við í stjórnarskrá frekari heimildum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum,t.d. ef ákveðinn hluti þjóðarinnar óskar þess og ef ákveðinn hluti þingsins samþykkir það.
Fjölmiðlamálið er mikilvægt
Fjölmiðlalögin eru mjög mikilvægt mál. Samkvæmt lögunum á að skerða tjáningarfrelsið,t.d. prentfrelsið.Í fyrsta sinn eru nú settar takmarkanir á það hverjir megi gefa út prentað mál,hverjir megi gefa út blað. Sá,sem á ljósvakamiðil má ekki gefa út blað. En lögin fela ekki aðeins í sér skerðingu á tjáningarfrelsinu heldur einnig á eignarrétti.Telja margir lögfræðingar að lögin gangi af þessum sökum í berhögg við stjórnarskrána.Lögin varða grundvallar réttindi landsmanna.Af þeim ástæðum er eðlilegt að forseti Íslands hafi viljað vísa málinu til þjóðarinnar.
Einfaldur meirihluti ráði
Nokkrar umræður hafa orðið undanfarna daga um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu og hvaða reglur eigi að gilda um hana. Ég tel eðlilegt,að einfaldur meirihluti ráði. Það er yfirleitt venjan og svo hefur verið í fyrri þjóðaratkvæðagreiðslum.Það er ekki eðlilegt að láta aukinn meirihluta gilda. Hugsanlegt er að setja einhver ákvæði um lágmarksþáttöku en þó er það ekki nauðsynlegt. Hugsa má einnig málið þannig,að þeir kjósendur sem mæta á kjörstað eigi að ráða málinu hvort sem þeir eru margir eða fáir.Ef kynning er sæmilega góð á málinu má telja víst,að kjörsókn verði góð. Leggja ber því aðaláherslu á góða kynningu fremur en ákvæði um lágmarksþáttöku.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 8.júní 2004
|