Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði á síðasta starfsdegi sínum sem utanríkisráðherra,að hann horfði á það með hryllingi hvernig Baugur misnotaði fjölmiðla sína. Einnig sagði formaðurinn,að hann hefði haft áhyggjur af Baugi,þar eð honum hafi fundist, að það stefndi í að heilbrigð samkeppni yrði eyðilögð í landinu,þar eð ákveðnir aðilar sölsuðu allt undir sig.Þetta eru gamalkunnar staðhæfingar,sem forusta Sjálfstæðisflokksins viðhafði,þegar deilan um fjölmiðlafrumvarpið stóð sem hæst.En er þetta rétt? Er Baugur að eyðileggja frjálsa samkeppni í landinu?Lítum á það.
Samsæri gegn Baugi segir Hreinn
Ekki er að sjá,að Baugur misnoti Stöð 2 á nokkurn hátt. Enginn munur er á fréttaflutningi ríkissjónvarpsins og Stöðvar 2. En hvað þá með Fréttablaðið? Er það misnotað í þágu eigenda sinna?Þess verður heldur ekki vart. Eina dæmið sem mætti ef til vill nefna í því sambandi er þegar Fréttablaðið birti einkaviðtöl við Jón Ásgeir Jóhannesson og föður hans Jóhannes um ákærurnar í svonefndu Baugsmáli. En varla telst það alvarleg “ misnotkun”.Birting Fréttablaðsins á tölvupósti,sem leiddi í ljós hverjir hrundu af stað lögreglurannsókn hjá Baugi er stórfrétt,sem allir fjölmiðlar hefðu birt ( nema ef til vill Mbl.)Þessi tölvupóstur leiddi í ljós,að áhrifamiklir menn í Sjálfstæðisflokknum komu við sögu,þegar ákvörðun var tekin um að kæra eigendur Baugs og hrinda af stað lögreglurannsókn. Hreinn Loftsson stjórnarformaður Baugs kallar samráð þessara áhrifamiklu Sjálfstæðismanna um aðgerðir gegn Baugi samsæri gegn fyrirtækinu í þeim tilgangi að koma því á kné.
Bónus með lægsta vöruverðið
En hvað um þá fullyrðingu,að frjáls samkeppni sé í hættu vegan stærðar og ofurvalds Baugs og Bónus í íslensku viðskiptalífi. Þessi fullyrðing er algerlega út í hött og stenst ekki.Samkeppnisyfirvöld hafa fylgst náið með markaðshlutdeild Bónus í smásöluversluninni. Þegar eigendur Bónus keyptu 10-11 verslanirnar var málið sent Samkeppnisstofnun og hlaut það blessun hennar.Viðurkennt er einnig,að Bónus verslanirnar hafa verið með lægsta vöruverðið í smásöluversluninni og að tilkoma Bónus hefur fært öllum almenningi mikla kjarabót í lækkuðu vöruverði. Öll fyrirtæki Baugs á Íslandi eru í mikilli samkeppni við önnur sambærileg fyrirtæki. Þetta á við Bónus,þetta á við Stöð 2,þetta á við Og Vodafone og þetta á við Fréttablaðið og DV. Einu fyrirtækin,sem hafa ógnað og spillt frjálsi samkeppni á Íslandi eru olíufélögin,sem eru uppvís að ólöglegu verðsamráði,sem valdið hefur neytendum ómældum skaða.Sjálfstæðisflokkurinn hefur lokað augunum fyrir brotum olíufélaganna.Flokkurinn gerir aðeins athugasemdir við þau fyrirtæki sem ekki eru flokknum þóknanleg.
Baugur hefur aukið samkeppni
Af því,sem hér hefur verið sagt er ljóst,að hvorki Bónus né Baugur hafa ógnað frjálsi samkeppni í íslensku viðskiptalífi. Í rauninni hafa þessi fyrirtæki aukið samkeppnina.Hins vegar hafa olíufélögin spillt frjálsi samkeppni samkvæmt úrskurði samkeppnisstofnunar. Tryggingafélögin hafa einnig dregið úr samkeppni með nánu samráði sín á milli.Önnur fyrirtæki,sem hafa haft yfirburðastöðu á íslenskum markaði á undanförnum árum eru Eimskipafélag Íslands,Flugleiðir og Morgunblaðið.Þess hefur ekki orðið vart,að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft áhyggjur af markaðsráðandi stöðu þessara fyrirtækja.
Það er hárrétt,sem Ingibjörg Sólrún hefur sagt,að Sjálfstæðisflokkurinn skiptir íslenskum fyrirtækjum í lið eftir því hvort þau eru Sjálfstæðisflokknum þóknarleg eða ekki. Það er mál til komið að slíkri liðskiptingu fyrirtækja linni.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 8.oktober 2005
|